Stuðningsmannaklúbburinn „The 1958“ sendi frá sér yfirlýsingu í dag um að það yrði skipulögð hópganga fyrir leik en um leið að allir stuðningsmenn United ættu að sameinast í því að mæta í svörtu á leikinn.
Það eru eiginlega bara slæmar fréttir af Manchester United þessa dagana. Félagið að skera niður á öllum stöðum, segja upp fólki og minnka fríðindi annarra. Þá gengur auðvitað ekkert inn á vellinum og það stefnir í versta tímabilið í sögu þess í ensku úrvalsdeildinni.
Ruben Amorim tók við liðinu af Erik ten Hag í október en vont hefur bara orðið verra undir hans stjórn. Það kostaði 14,5 milljónir punda að reka Ten Hag eða meira en tvo og hálfan milljarð.
United er í fjórtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og féll úr enska bikarnum um síðustu helgi.
„Félagið er hægt og rólega að deyja fyrir framan augu okkar, bæði innan sem utan vallar. Sökin skrifast algjörlega á núverandi eigandafyrikomulag,“ sagði Steve Crompton frá The 1958 í yfirlýsingu sem ESPN fjallaði um.
„Það blasir við fjárhagslegt harmagedón hjá félaginu. Skuldir eru leiðin til glötunar. Sir Matt Busby myndi snúa sér í gröfinni yfir núverandi stjórnarháttum hjá stórkostlegasta fótboltafélagi heims. Það er verið að knésetja þetta félag og það er að verða að aðhlátursefni,“ sagði Crompton.
„Félagið er á leiðinni afturábak og það er líklegt að þetta eigi bara eftir að verða verra. Við hverjum stuðningsmenn til að standa upp, sameinast og hittast klukkan þrjú á sunnudaginn þegar við ætlum að ganga saman og mótmæla Glazer bræðrum og meðvitaðri árás félagsins á menningu stuðningsfólks félagsins,“ sagði Crompton.
United supporters urged to wear black against Arsenal ‘to symbolise how the club is slowly dying’ #mufc pic.twitter.com/YgZwDUYf4Y
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) March 4, 2025