Fótbolti

Ronaldo sýndi ó­vænta ó­eigin­girni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar sigri með liðsfélögum sínum í Al Nassr í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar sigri með liðsfélögum sínum í Al Nassr í gær. Getty/Yasser Bakhsh

Cristiano Ronaldo skoraði laglegt skallamark í 2-0 sigri Al Nassr á Al Wehda í sádi-arabísku deildinni í fótbolta í gær en portúgalska stórstjarnan hefði getað skorað annað mark í þessum leik.

Ronaldo sem dreymir um að verða sá fyrsti í sögunni til að skora þúsund mörk í opinberum leikjum er nú kominn upp í 925 mörk á ferlinum.

Hann er nú ekki þekktur fyrir að sýna mikla óeigingirni inn á vellinum en hann sýndi hana þó í gær.

Ronaldo fiskaði nefnilega víti á lokamínútum leiksins þegar skot hans var varið með hendi innan teigs.

Það bjuggust flestir við því að Ronaldo tæki vítið sjálfur og kæmist einu marki nær þúsund en hann leyfði samt liðsfélaga sínum Sadio Mané að taka vítið.

Mané hafði ekki skorað í langan tíma, eða í níu leikjum í röð, og þurfti því á marki að halda.

Hinn fertugi Ronaldo er nú kominn með sautján deildarmörk á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með einu marki meira en Karim Benzama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×