Atvinnulíf

Z-kynslóðin fílar ekki stjórnunarstílinn og hættir

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Viðhorf Z-kynslóðarinnar eru svo allt öðruvísi en viðhorf þeirra kynslóða sem eldri eru enda hefur það sýnt sig að sú kynslóð sem er líklegust til að vera ekki virk á vinnustöðum eða hætta, er Z-kynslóðin. En kannski ættu stjórnendur þá að líta í eigin barm?
Viðhorf Z-kynslóðarinnar eru svo allt öðruvísi en viðhorf þeirra kynslóða sem eldri eru enda hefur það sýnt sig að sú kynslóð sem er líklegust til að vera ekki virk á vinnustöðum eða hætta, er Z-kynslóðin. En kannski ættu stjórnendur þá að líta í eigin barm? Vísir/Vilhelm

Það eru alls konar kenningar um að hin svokallaða Z-kynslóð sé ekkert svo ofboðslega hrifin af því að fara inn á vinnumarkaðinn eða að vinna langa vinnudaga.

Og það eru líka alls konar kenningar til um hvers vegna þessi kynslóð virðist oft staldra stutt við á hverjum stað. Andlega uppsögnin (e. quiet quitting) er að minnsta kosti að mælast langmest hjá Z-kynslóðinni.

Oft fellur fólk í þá gryfju að beina sjónunum að fólkinu í Z-kynslóðinni til að leita skýringa á því hvers vegna þetta uppsagnarmynstur er svona áberandi hjá unga fólkinu.

Í stað þess að líta í eigin barm.

Því já: Ein kenningin sem þarf að teljast svolítið líkleg er að unga fólkið er einfaldlega ekki að fíla það hvernig fyrirtæki og vinnustaðir eru reknir.

Ekki að fíla:  Stjórnarhættina. Yfirmennina. Stjórnunarstílinn.

Skýringin er ekki sú að unga fólkið telji sig vita betur eða hafi krufið málin til mergjar. Heldur einfaldlega það að unga fólkið kann betur að skilgreina hvernig þeim líður miðað við margar eldri kynslóðir.

Greinahöfundur Fastcompany vill meina að til að halda í unga fólkið, þurfi stjórnendur fyrst og fremst að leggja áherslu á atriði eins og:

Að vera góð manneskja

Að vera réttlát manneskja

Að gefa þeim virka og stöðuga endurgjöf; vera skýr með hvaða væntingar eru til starfsmannsins og upplýsa um allar ákvarðanir á þann háttinn að ákvarðanatakan sjálf er gagnsæ.

Margt í þessu er þó ekkert nýtt af nálinni. Í mörg ár, reyndar áratugi, hefur til dæmis verið á það lögð áhersla að stjórnendur þurfi að þjálfa sig í og vera góðir í virkri hlustun. Sem er allt annað en almennt gildir, því algengt er að fólk telji sig vera að hlusta en sé í rauninni að hugsa um sitt eigið svar eða samtal á meðan.

Síðustu misseri hefur líka nokkuð verið talað um að vellíðan á vinnustað þýði að starfsfólk þurfi að upplifa sálfræðilegt öryggi á vinnustaðnum. En hvernig á Z-kynslóðinni að takast það ef þau upplifa yfirmanninn ekki næs?

Sem betur fer eru ýmsir vinnustaðir að gera hlutina rétta: Því þangað þyrpist einfaldlega unga fólkið og eftirspurnin eftir störfum þar jafnvel meiri en framboðið. 

Ýmislegt er sagt einkenna þessa vinnustaði. Meðal annars það að meira er lagt upp úr teymisvinnu en árangursmarkmið hvers og eins. Eða að frammistöðusamtöl og endurgjöf séu samtöl yfirmanns við starfsmann á hlutlausum og afslöppuðum stað. Til dæmis tengt áhugamálinu eða inni á kaffistofu. Þar sem enginn þarf að fara í vörn: Og starfsmaðurinn á jafnvel auðveldara með að opna sig og spyrja yfirmanninn spurninga.

Í ljósi þess að Z-kynslóðin er fædd á tímabilinu 1995-2012 má alla vega vera ljóst að það verður nokkuð spennandi að fylgjast með þróun mála á komandi árum. Því sífellt bætist í þann hóp á vinnumarkaði sem telst til Z-kynslóðarinnar, á meðan fækkar í Baby boomers hópnum.

Kynslóðirnar fjórar sem nú eru á vinnumarkaði miðast við eftirfarandi fæðingatímabil:

Baby Boomers er fólk sem fætt er á tímabilinu 1946 til 1964.

Kynslóð X er fólk fætt tímabilið 1965-1979.

Aldamótakynslóðin er fædd 1980 til ársins 1994.

Z kynslóðin er fólk sem fætt er 1995-2012.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×