Skoðun

Stétt með stétt?

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Hvað þýða kjörorð Sjálfstæðisflokksins „stétt með stétt“? Í aðdraganda landsfundar flokksins, sem hefst næstkomandi föstudag, hefur umræða spunnist um þessa spurningu og hvort kjörorðið skipti einhverju máli í stjórnmálum samtímans.

Sögulegar rætur kjörorðsins

Samkvæmt upphaflegu stofnskrá Sjálfstæðisflokksins frá vorinu 1929 vildi flokkurinn vinna „að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum“. Sem sagt, það er í þágu allra stétta að frelsi einstaklingsins sé varið, en innan ramma laga samfélagsins, svo umorðuð séu ummæli Jóns Þorlákssonar, fyrsta formanns flokksins, í grein sem birt var í Morgunblaðinu 30. maí 1929.

Án tengingar við allar stéttir samfélagsins gat Sjálfstæðisflokkurinn aldrei orðið sú breiðfylking borgaralegra afla sem hann síðar varð. Verkafólk átti sér rödd í Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og forystufólk í hópi atvinnurekenda.

Með öðrum orðum, við erum öll í þessu saman, þótt við verjum einstaklingsfrelsið.

Hver er staða kjörorðsins í dag?

Í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins hafa þær raddir heyrst að kjörorðið „stétt með stétt“ sé óljóst. Samt eru til margvíslegar heimildir sem skýra merkingu kjörorðsins.

Áhersla Sjálfstæðisflokksins á frelsi einstaklingsins byggir á því að það sé „tækið“ til að ná sem mest út úr þeim mannauð sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Það „tæki“ þjónar hins vegar jafnframt æðri markmiðum, að við séum að verja hagsmuni allra, hvaða stétt svo sem fólk tilheyrir. Þetta skiptir ekki síst máli í litlu samfélagi eins og því íslenska.

Ísland var hvorki stéttlaust þjóðfélag árið 1929 né er svo í dag. Sannfæra þarf hins vegar kjósendur að faðmur Sjálfstæðisflokksins sé breiður og að flokkurinn starfi eftir traustum gildum sem þjóna almannahagsmunum. Einstaklingur sem tekur þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins á að geta treyst því að rödd sín hafi þýðingu, óháð stöðu sinni í samfélaginu.

Kjörorðið „stétt með stétt“ er skýrt og skiptir máli fyrir allt stjórnmálastarf Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Skjárinn og börnin

Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir,Skúli Bragi Geirdal skrifar

Sjá meira


×