Fyrir leikinn í dag voru Blikar aðeins búnir að vinna einn sigur í fyrstu þremur leikjum sínum í Lengjubikarnum en gátu tyllt sér á topp riðilsins með sigri.
Þeir létu heldur ekki bjóða sér það tvisvar. Blikar byrjuðu af gríðarlegum krafti og voru komnir 4-0 eftir rúmlega tuttugu mínútna leik.
Arnór Gauti Jónsson kom Blikum í 1-0 strax á 6. mínútu og Óli Valur Ómarsson tvöfaldaði forystuna fjórum mínútum síðar. Kristinn Steindórsson skoraði þriðja markið á 16. mínútu og Valgeir Valgeirsson bætti fjórða markinu við á 23. mínútu og sigurinn tryggður.
Staðan í hálfleik var 4-0 en snemma í síðari hálfleik skoraði Óli Valur sitt annað mark og hann innsiglaði þrennuna með marki fimm mínútum fyrir leikslok. Óli Valur er uppalinn hjá Stjörnunni en kom til Blika í vetur eftir dvöl hjá Sirius.
Lokatölur 6-0 fyrir Breiðablik sem þar með eru komnir á topp annars riðils A-deildar Lengjubikarsins og eru með eins stigs forskot á Fram sem er í 2. sæti.