Innlent

Segir ekkert til í á­sökunum KÍ um flokka­drætti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar sveitarfélaga segir stjórnina hafa verið einhuga í afstöðu sinni til innanhússtillögunnar.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar sveitarfélaga segir stjórnina hafa verið einhuga í afstöðu sinni til innanhússtillögunnar. Vísir/Vilhelm

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaradeilunni gegn kennurum, segir ekkert til í ásökunum formanns Kennarasambands Íslands um að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn standi í vegi fyrir samningum til að koma höggi á ríkisstjórnina.

Magnús Þór Jónsson formaður KÍ sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að honum væri það orðið ljóst að fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í stjórn SÍS hafi sett sig upp á móti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilunni. Þetta sagði hann eftir að Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri og formaður SÍS, greindi frá að hún hefði stutt tillöguna. 

SÍS hafnaði innanhústillögu ríkissáttasemjara á síðustu stundu í hádeginu í gær eftir að kennarar höfðu samþykkt hana. Fram kom í tilkynningu frá sambandinu að málið hafi strandað á forsenduákvæði og hækkun umfram 22% á samningstímanum. 

„Það er fyrst og fremst þetta forsenduákvæði sem stendur í okkur. Við erum að fjárfesta gríðarlega mikið í þessum samningi og viljum tryggja það að kennarar standi við sinn hluta út samningstímabilið,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir í samtali við fréttastofu.

„Ég ræð ekkert yfir þeim“

Kennarar gengu margir út úr kennslustofum á hádegi í gær eftir að afstaða SÍS lá fyrir. 

„Það er auðvitað leitt en ég ræð ekkert yfir þeim,“ segir Inga Rún.

Sveitarfélögin og kennarar hafi aldrei verið nær því að semja. Ekki miklu muni á milli.

„Það er margt í þessari tillögu sem við erum mjög sátt við og kennarar eru líka mjög sáttir við. Ég held það sé ekki mjög langt á milli okkar. En það þarf að greiða úr þessum hnút sem út af stendur og þá vona ég að við getum klárað þetta.“

Ekki orðið vör við pólitík

Hún segir ekki marga innan stjórnar hafa stutt tillöguna en segist ekki geta sagt hvað þeir voru margir.

„Stjórnin greiðir atkvæði um svona tillögur í einu lagi. Annað hvort samþykkir stjórnin eða hafnar. Ég get ekki uppljóstrað um það hvernig það er en það var mikill einhugur í stjórninni um að fella þessa tillögu,“ segir Inga. 

Formaður KÍ heldur því fram að þetta sé pólitískt og það séu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem leggist gegn því að semja við kennara til að koma höggi á nýja ríkisstjórn. Er eitthvað til í þessu?

„Ég hef ekki orðið vör við þetta og þó er ég að vinna með þessu fólki alla daga. Ég hef ekki orðið vör við þetta og það hefur ekki komið fram í störfum stjórnar.“


Tengdar fréttir

Kennarar gengu út og nýr borgarstjórnarmeirihluti

Kennarar gengu út úr kennslustofum í nokkrum skólum í dag í mótmælaskyni eftir að sveitarfélögin höfnuðu miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilunni. Við heyrum í nokkrum kennurum, nemendum og foreldrum í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þá kemur Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins í myndver og fer yfir stöðuna í lok dags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×