Gagnrýni

Tveggja barna mið­aldra móðir sem er sjúk í strákinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bridget Jones kynnist unga skógarverðinum Roxster eftir að hún festist með börnum sínum uppi í tré. Bridget verður sjúk í strákinn og ástin blómstrar þrátt fyrir aldursmuninn. Svo flækjast málin auðvitað og ýmislegt kemur upp á.
Bridget Jones kynnist unga skógarverðinum Roxster eftir að hún festist með börnum sínum uppi í tré. Bridget verður sjúk í strákinn og ástin blómstrar þrátt fyrir aldursmuninn. Svo flækjast málin auðvitað og ýmislegt kemur upp á.

Bridget Jones er snúin aftur í enn eitt skiptið, nú miðaldra tveggja barna móðir. Þó Bridget sé alltaf jafn klaufsk og ógeðslega fyndin þá kveður við fullorðinslegri (og ögn væmnari) tón en áður. Fólk sem þyrstir í góða rómantíska gamanmynd með klassískum ástarþríhyrning verður ekki svikið.

Bridget Jones: Sjúk í strákinn er fjórða myndin um hina sjarmerandi Bridget Jones sem er auðvitað leikin af Texas-búanum Renée Zellweger. Þá snúa Colin Firth og Hugh Grant aftur sem Mark Darcy og Daniel Cleaver auk annarra gamalkunnugra karaktera. Þá bætast við tveir nýir karlmenn, leiknir af Leo Woodall og Chiwetel Ejiofor.

Leikstjóri myndarinnar er Michael Morris sem hefur unnið í sjónvarpi frá 2007 og leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd, To Leslie, árið 2022. Handrit myndarinnar skrifar Helen Fielding, höfundar bókanna um Bridget Jones, ásamt velska leikskáldinu Abi Morgan og handritshöfundinum Dan Mazer sem hefur unnið mikið með Sacha Baron Cohen.

Brautryðjandi skvísuskruddanna

Eftir að hafa gefið út fyrstu skáldsöguna sína við góðar viðtökur en dræma sölu hóf breski blaðamaðurinn Helen Fielding að skrifa reglulegan dálk í dagblaðið The Independent. Dálkurinn var í formi dagbókaskrifa hinnar ýktu og írónísku Bridget Jones sem hagaði sér aldrei alveg eins og samfélagið vildi að hún gerði.

Helen Fielding áritar bókina Bridget Jones: Mad About the Boy árið 2013.Getty/Ferdaus Shamim

Dálkarnir um Bridget Jones slógu í gegn og forlag Fielding bað hana um að gefa út skáldsögu um persónuna. Dagbók Bridget Jones var í formi dagbókarfærslna en byggði á Hroka og hleypidómum eftir Jane Austen. Bókin kom út í harðspjalda útgáfu 1996 og gekk ágætlega en varð svo að metsölubók um allan heim þegar hún kom út í kilju ári síðar.

Bókinni hefur verið lýst sem frumriti skvísuskrudda (e. chick-lit) sem hafa verið æðivinsælar síðastliðin þrjátíu ár. Þremur árum síðar kom út framhaldið The Edge of Reason og svo liðu tæp tuttugu ár þar til bækur þrjú og fjögur í seríunni komu út.

Dagbók Bridget Jones var kvikmynduð árið 2001, fékk frábærar viðtökur bæði meðal gagnrýnenda og áhorfenda og hefur síðan orðið stöpull í romcom-greininni. Þrjár framhaldsmyndir hafa fylgt í kjölfarið. 

Sú nýjasta, Bridget Jones: Sjúk í strákinn er nýkomin í bíó og fór gagnrýnandi með konu sinni að sjá hana daginn fyrir Valentínusardag.

Mark Darcy og Daniel Cleaver hafa bitist tvívegis um Bridget Jones.

Hvar erum við stödd í sögunni?

Áður en fjórða myndin er tekin fyrir ber aðeins að spóla til baka upp á samhengið. Undirritaður horfði á fyrstu þrjár myndirnar um Bridget Jones í fyrsta skipti yfir þriggja vikna tímabil jólin 2023. Þess má geta að allar þrjár eru á íslenska Netflix nú um stundir.

Daniel Cleaver fær mun stærri rullu í annarri myndinni.Universal

Fyrsta myndin er sannarlega klassík, aðallega vegna þess að Jones (Zellweger) er svo einstök fígúra, bæði fyndin og klaufsk en líka sjarmerandi og raunsæsisleg. Handrit Fielding og dagbókarfærslur Bridget eru sömuleiðis algjör snilld. Vandræði Jones við að velja á milli hins þurra Mark Darcy (Firth) og sóðalega sprelligosans Daniel Cleaver (Grant) eru kostuleg og dýnamíkin milli allra þriggja virkar mjög vel.

Önnur myndin, Bridget Jones: The Edge of Reason (2004), fannst mér glötuð. Ástarþríhyrningur Jones, Darcy og Cleaver er endurnýttur nema myndin er ekkert sérlega fyndin heldur langdregin og groddaraleg. Hugsanlega náði ég ekki að stilla væntingum í hóf vegna ágætis fyrstu myndarinnar.

Hver er pabbinn? Er það myndarlegi kaninn eða gamli góði Darcy?

Þriðja myndin, Bridget Jones‘s Baby (2016), hristir aðeins upp í formúlunni með því að taka Daniel Cleaver úr jöfnunni og fá bandarískt sjarmatröll (Patrick Dempsey) í hans stað. Jones er ólétt og veit ekki hver faðirinn er. Þessi er ögn fyndnari en forveri sinn en dálítið langdregin og nær ekki að fanga sjarma eða stemmingu fyrstu myndarinnar.

Væntingarnar fyrir fjórðu myndinni voru því ekki miklar hér á bæ.

Tveir nýir gaurar 

Sjúk í strákinn gerist níu árum eftir atburði þriðju myndarinnar. Hér er haldið í gömlu ástarþríhyrnings-formúluna en í stað Mark Darcy og Daniel Cleaver eru komnir tveir nýir menn.

Bridget er orðin einstæð tveggja barna móðir og hefur ekki verið við mann kennd í langan tíma. Það breytist þegar hún hittir fyrir unga hönkið Roxster (Woodall). Ástin blómstrar en tuttugu ára aldursmunurinn flækir málin.

Bridget kynnist á svipuðum tíma kennara barna sinna, Mr. Wallaker (Ejiofor), sem þrátt fyrir að vera strangur reynist syni hennar afar vel. Best er að segja ekki mikið meira og fyrir þá sem vilja sjá myndina óspilltir er best að hoppa yfir næsta kafla.

Annar tónn í Bridget

Nú verður að spilla lykilatriði: Mark Darcy dó fyrir fjórum árum við mannúðarstörf í Súdan. Áhorfendur eru hins vegar blekktir tvívegis á snjallan hátt í byrjun myndar. Fyrst virðist Bridget vera á leið á stefnumót með Daniel Cleaver sem reynist eiga að passa börnin fyrir hana. Síðan sjáum við hana á leið að hitta Darcy en þá kemur í ljós að hann er aðeins draugur.

Helen Fielding skrifaði bókina, sem myndin byggir á, eftir að hún missti manninn sinn. Þrátt fyrir að vera galsakennd grínmynd blundar sorgin undir niðri. Bridget hefur syrgt Darcy frá því hann dó, hætt í vinnunni og sett ástar- og félagslíf sitt í biðstöðu.

Mabel og Billy eru algjör krútt.

Hún hefur líka verið að ala upp börnin tvö, hina fjögurra ára Mabel og hinn níu ára Billy. Samband Bridget við börnin er fallegt og þau fá hæfilega mikinn tíma á skjánum án þess að verða of böggandi. Móðurhlutverkið fer Bridget vel en hún á samt í stökustu vandræðum með flestallt sem kemur heimilinu við.

Vinir og fjölskylda veita Bridget sífellt misgóð ráð til að vinna bug á sorginni en þau gagnast lítið. Þegar læknirinn Dr. Rawlings (Emma Thompson) hvetur Bridget til að fara aftur að vinna og hún finnur gömlu góðu dagbókina verður ákveðinn vendipunktur. Bridget snýr aftur í sjónvarpsframleiðsluna.

Myndin er meinfyndin, sérstaklega framan af, mun fyndnari en síðustu tvær myndir. Innkoma Cleaver er firnasterk og Hugh Grant virðist fæddur til að leika þennan sóðakjaft. Þá er Bridget jafnmikill álfur út úr hól sem fyrr og hinir ýmsu aukaleikarar bæta miklu við. Grínspjótunum er beint að breskum einkaskólamömmum og litlu dekurdrengjum þeirra í bland við klassískan aulahúmor.

Bridget og Roxsterinn ungi þegar hann er nýbúinn að heilla alla upp úr skónum í garðpartýi.

Bridget ákveður líka að byrja að deita á ný og rambar nánast strax á vænlegan feng. Skógarvörðurinn Roxster hjálpar Bridget og börnum niður úr tré í frábærri meet-cute-senu. Hann er tuttugu árum yngri en hún en þau heillast samt hvort af öðru og enda á því að eyða sumrinu saman.

Fyrir utan eitt stefnumót og kynlífssenu er sambandið sýnt meira og minna gegnum samklipp (e. montage). Fyrir vikið er persóna Roxstersins frekar grunn og einn veikasti hlekkur myndarinnar. Gamanmyndir um sambönd eldri kvenna við yngri menn virðast vera í tísku þessa dagana (The Idea of You, A Family Affair og Babygirl) en slíkt samband er tekið mun betur fyrir í Babygirl (og dramanu May December).

Sjá: Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola

Um haustið missir drukkinn Roxster út úr sér að hann vildi óska þess að hann hefði tímavél. Hann er orðinn meðvitaður um aldursmuninn og þá er ekki aftur snúið. Bridget er ghost-uð í fyrsta skipti þegar Roxster lætur sig hverfa og svarar engum skilaboðum. 

Hann snýr á endanum aftur með skottið milli lappanna og játar ást sína á henni. Bridget veit að aldurinn er óyfirstíganleg hindrun og bindur enda á sambandið.

Wallaker og Bridget fara saman í skóla-útilegu.

Hvað þá? Ekki endar myndin án þess að finna ástina að nýju. Þeir sem þekkja formið (og hafa séð plakatið) vita hver er líklegur kandídat. 

Auðvitað hinn alvarlegi og strangi Mr. Wallaker (sem minnir um margt á Mr. Darcy) þó það hafi ekki beint verið mikil kemistría milli þeirra. Viðvera hans á skjánum hefur verið nægileg til að áhorfendur kaupi hugmyndina.

Öflugra hefði verið að láta hana enda karlmannslausa, snúa þannig upp á formið, en þetta er hefðbundin rómantísk gamanmynd og fær því hefðbundið niðurlag. Endirinn er svo ansi væminn, langur og langdreginn en fyrir alvöru ástar-sökkera er það bara gaman.

Vandræðastaða rómantísku gamanmyndarinnar

Rómantíska gamanmyndin hefur sjaldan verið jafn illa stödd. Rómantískar gamanmyndir sem hafa ratað í bíóhús undanfarin ár má telja á fingrum annarrar handar, þar má nefna No Hard Feelings, Anyone But You og Fly Me to Moon en ekki margar aðrar (Anora fellur tæplega inn í flokkinn).

Það er þó ekki þar með sagt að rómantískar gamanmyndir séu horfnar en núna rata þær nánast bara á streymisveitur og hverfa þar í glundroðanum. Netflix-myndir skilja varla eftir sig spor í menningunni, birtast á veitunni einn daginn og gleymast svo. Hvaða Netflix-romcom horfðir þú, kæri lesandi, síðast á sem sat eftir í þér í einhvern tíma?

Anyone But You með Glen Powell og Sydney Sweeney hlaut ágætis viðtökur 2023.

En þetta er hluti af stærra vandamáli sem fylgir gjörbreyttum kvikmyndaiðnaði Hollywood. Annað vandamál er kyn- og kynlífsleysi samtímakvikmynda (sem lesa má nánar um í gagnrýni á Babygirl) sem er auðvitað lykilhluti góðrar rómantískrar gamanmyndar. Án kemistríu og aðdráttarafls milli fólks hefurðu ekkert.

Við þurfum góðar rómantískar gamanmyndir og við þurfum að fá þær í bíó. Það er ekki bara hægt að kúra uppi í sófa með kærustunni/kærastanum með snakk og horfa á glataðar Netflix-myndir meðan maður doom-skrunar í símanum. Við verðum að fá að sjá þær á stóra skjánum, fara á vandræðaleg fyrstu stefnumót eða á langþráð rómantískt foreldra-deit.

Sjúk í strákinn er engin tímamótamynd en maður tekur því samt fagnandi að fá ágæta rómantíska gamanmynd. Um leið veit maður að svona lágstemmd hugljúf mynd fengi aldrei sambærilega athygli ef hún væri ekki tengd jafn þekktu hugverki eins og Bridget Jones er.

Niðurstaða

Bridget Jones: Sjúk í strákinn heldur í hefðirnar með góðum ástarþríhyrningi, vandræðalegum senum og góðu gríni. Blandan er krydduð með því að skipta inn nýjum ástarviðföngum og láta söguhetjuna eiga í sambandi við mun yngri mann.

Sorgin spilar sömuleiðis stóra rullu í myndinni og gerir hana þannig frábrugðna öðrum rómantískum gamanmyndum. Bridget er ekki bara að reyna að finna ástina upp á nýtt heldur líka að reyna að takast á lamandi sorg og missi.

Zellweger hefur ekki gleymt gömlu töktunum og Hugh Grant sjaldan verið betri þrátt fyrir takmarkaða rullu. Nýliðarnir tveir eru sömuleiðis einkar góðir, Woodall er krúttlegur og sjarmerandi sem ungi elskhuginn þó rulla hans sé afar þunn og Ejiofor er frábær sem strangi einkaskólakennarinn.

Ég segi bara eitt við aðdáendur Bridget Jones, fólk sem fílar rómantískar gamanmyndir og þá sem hafa gaman af því að hlæja og gráta yfir góðum myndum: Skellið ykkur á Sjúka í strákinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.