Eggert, sem er 21 árs gamall, viðurkennir að dvölin hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg hafi ekki staðist væntingar en tækifæri hans þar voru af afar skornum skammti.
„Ég hélt að þetta yrði mjög gott skref fyrir mig en á endanum varð þetta ekki gott skref. Vonandi er Brann frábært skref,“ sagði Eggert við heimasíðu Brann í viðtali sem var tekið á Marbella á Spáni, þar sem liðið undirbýr sig fyrir komandi tímabil.
Eggert hafði slegið í gegn með Stjörnunni í Bestu deildinni og skorað ellefu mörk á kveðjutímabili sínu þar 2023 en fékk aðeins þrjá leiki í byrjunarliði Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra, og alls sjö deildarleiki en í þeim skoraði hann eitt mark.
Nú er hann mættur til Brann sem hafnað hefur í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar tvö ár í röð og fékk í vetur Frey sem þjálfara.
„Brann er mjög áhugavert félag. Liðið hefur náð góðum árangri síðustu ár og þegar ég heyrði af áhuga Brann varð ég strax spenntur. Ég held að þetta sé gott val fyrir mig,“ sagði Eggert og bætti við:
„Ég ætla mér að koma með jákvæða orku til Brann, bæði innan og utan vallar. Inni á vellinum er ég mjög ákafur leikmaður sem ætti að henta Brann mjög vel og ég vona að leikstíll liðsins henti mér. Ég vil taka leikmenn á, fara í einvígi og sýna hörku þó að ég sé ekki sá stærsti.“
Brann sækir Fredrikstad heim 29. mars í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar.