Emilía Kiær og félagar í RB Leipzig lentu undir á móti Turbine Potsdam en tryggðu sér 4-1 sigur með fjórum mörkum í seinni hálfleiknum.
Emilía Kiær var í byrjunarliðinu og skoraði jöfnunarmarkið á 56. mínútu. Mikilvægt mark sem kom hennar liði í gang. Fjórum mínútum síðar fékk Leipzig viti og Giovanna Hoffmann kom Leipzig yfir.
Mia Schmid hafði skorað fyrsta mark leiksins strax á sautjándu mínútu og kom Turbine Potsdam í 1-0.
Hoffmann bætti síðan öðru marki sínu við á 82. mínútu en Emilía fór af velli eftir klukkutíma leik. Fjórða markið skoraði síðan Vanessa Fudalla rétt fyrir leikslok.
Emilía var að skora í öðrum leiknum í röð því hún skoraði einnig í 4-1 sigri á Werder Bremen fyrir sex dögum.
RB Leipzig er í fimmta sæti deildarinnar eftir þennan sigur með 25 stig í fimmtán leikjum.