Fréttamaður Stöðvar 2 náði tali af Líf Magneudóttur, oddvita Vinstri grænna og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokksins, eftir óformlegan fund oddvitanna heima hjá Heiðu Björgu í gær.
„Heiða bakaði yndislegt kryddbrauð og lokkaði okkur til sín. Þannig ég veit ekkert hvað verður næst,“ sagði Líf Magneudóttir við fréttastofu. Þegar fréttamaður Rúv spurði síðan hvort hópurinn væri kominn með formlegt nafn eins og Valkyrjurnar svaraði Líf: „Kryddpíurnar!“
Kryddpíur og kryddbrauð
Á næstunni munu því vafalaust spretta upp alls konar skrif og vangaveltur um það hver oddvitanna sé hvaða kryddpía. Það verður ekki gert hér en hins vegar leitaði fréttastofa til Heiðu Bjargar Hilmisdóttur til að forvitnast út í þetta kryddbrauð sem vakti svo mikla lukku.
Að sögn Heiðu hentar kryddbrauðið fyrir öll, vegan sem ekki vegna, unga sem aldna. Hún bauð borgarstjórnarhópi Samfylkingarinnar líka upp kryddbrauðið og segir það hafa slegið jafnmikið í gegn þar og hjá oddvitunum.
Hér fyrir neðan má sjá uppskriftina að kryddbrauði Heiðu og einfaldar leiðbeningar:
Kryddbrauð
- 3 dl hveiti
- 3 dl haframjöl
- 1 ½ dl sykur
- 1 tsk. kanill
- ½ tsk. engifer
- 1 tsk. negull
- 1.tsk kakó
- 2 tsk. matarsódi
- 3 dl haframjólk
Setjið þurrefni í skál og hrærið haframjólkina saman við með sleif. Hrærið öllu saman og setjið í eitt stórt eða tvö lítil smurð form. Bakið við 200°C fyrstu fimmtán mínútunar og svo lækka í 175°C og bakið í 25 mín.
Nú geta lesendur Vísis bakað kryddbrauð og kannski líka hafið formlegar meirihlutaviðræður.