Því já, í Bandaríkjunum hafa rannsóknir sýnt það ár eftir ár að mánudagurinn eftir Super Bowl er sá dagur þar sem flestir hringja sig inn veika. Til að setja þetta í samhengi segir í niðurstöðum rannsóknar að búast megi við að um 6,8 milljónir starfsmanna hringi sig inn veika í dag.
Hvers vegna?
Einfaldlega vegna þess að gleðin og stemningin var svo mikil um helgina. Enda Super Bowl stærsti íþróttaviðburðurinn í Bandaríkjunum.
Að íþróttir hafi þessi áhrif á atvinnulífið er ekki bundið við Bandaríkin.
Þannig sýna rannsóknir í Bretlandi að stórir leikir hafa sambærileg áhrif. Sem dæmi má nefna hringdu 254% fleiri sig inn veikan mánudaginn 19.desember 2022, en þá helgi kepptu Argentína og Frakkland til úrslita í heimsmeistaramótinu í fótbolta. Árið 2020, mánudaginn eftir að England og Ítalía kepptu til úrslita á Evrópumótinu, jukust veikindatilkynningar um 232% miðað við meðaltal veikindatilkynninga í júlí.
Engar sambærilegar upplýsingar eru til um það hvort stórir íþróttaviðburðir eða aðrar stemningshátíðir hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað.
Þó hafa mánudagstilkynningar löngum verið tengdar við vísbendingar um að veikindin snúist meira um að jafna sig eftir góða helgi en að eitthvað alvarlegra ami að. Svo lengi hefur þetta viðgengist að í rannsókn sem gerð var í Bretlandi árið 2009 sýndu niðurstöður að mánudagurinn er að jafnaði langvinsælasti dagur starfsfólks til að tilkkynna veikindi.
Stjórnendur ættu þó að fara varlega í að skrifa áberandi mánudagsveikindi eingöngu á gleðina sem var um liðna helgi. Því rannsóknir hafa einnig sýnt að þegar tilkynningar um veikindi eru að sýna sig áberandi mikið á mánudögum, getur það líka verið vísbending um undirliggjandi vandamál. Til dæmis óánægju í starfi.