Fótbolti

Svekkjandi töpuð stig hjá Sveindísi og fé­lögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir var mjög svekkt eftir að Wolfsburg tapaði tveimur mikilvægum stigum í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir var mjög svekkt eftir að Wolfsburg tapaði tveimur mikilvægum stigum í kvöld. Getty/Andrea Staccioli

Wolfsburg tókst ekki að taka með sér öll stigin og komast í toppsæti þýsku deildarinnar í kvöld.

Liðið varð að sætta sig við markalaust jafntefli við Köln á útivelli en með sigri hefði Wolfsburg komist í efsta sætið.

Kölnarliðið var í nauðvörn stærstan hluta leiksins en tókst að landa stigi. Liðið er í þriðja neðsta sæti og þetta var aðeins sjötta stig liðsins í leik númer þrettán á tímabilinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði á bekknum hjá Wolfsburg en kom inn á í hálfleik. Hún náði ekki að skora ekki frekar en liðsfélagar hennar. Það voru margar lofandi sóknir og margar góðar tilraunir en boltinn vildi ekki inn.

Það mátti sjá á Sveindísi í leikslok að svekkelsið var mjög mikið enda gætu þessi úrslit haft mikil áhrif í baráttunni um titilinn. Hún átti tvö skot en bjó líka til færi með löngu innköstunum sínum.

Hin norska Aurora Mikalsen spilaði sinn fyrsta leik í marki Köln og átti stórleik. Hún varði fjölda skota mörg úr mjög góðum færum. Þar á meðal var eitt skot frá Sveindísi sem hún varði í stöngina.

Wolfsburg er í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig eða jafnmörg stig og Frankfurt og Bayern München. Þau eru bæði með betri markatölu og eiga einnig leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×