Mark Karólínu var 1-1 jöfnunarmark eftir að Frankfurt tók forystuna af vítapunktinum. Karólína tók við skoppandi boltanum rétt fyrir framan miðju, og skaut svo af óralöngu færi og skoraði. Markið er með glæsilegra móti og má sjá hér fyrir neðan.
Frankfurt komst aftur yfir aðeins tveimur mínútum síðar. Leverkusen jafnaði svo í 2-2 í upphafi seinni hálfleiks, Katharina Piljíc skoraði markið eftir hornspyrnu og stoðsendingu frá Karólínu.
En aftur, aðeins tveimur mínútum síðar, tókst Frankfurt að taka forystuna á ný. Karólína var tekin af velli á 60. mínútu, Leverkusen tókst ekki að jafna í þriðja sinn og lokatölur urðu 3-2.
Um var að ræða toppslag, liðin tvö ásamt Bayern Munchen voru jöfn með 29 stig fyrir leik. Frankfurt fer því í efsta sætið eftir sigurinn, með þriggja stiga forystu en Bayern á leik á sunnudaginn gegn Leipzig.