Í fréttum Stöðvar 2 var fylgst með Beechcraft King Air-flugvél Mýflugs koma inn til lendingar á flugvellinum í Narsarsuaq eftir tveggja stunda flug frá Reykjavík. Farþegarnir um borð í þessari níu sæta flugvél voru á vegum málmleitarfélags Elds Ólafssonar, Amaroq.
Icelandair hefur lengi verið öflugt í Grænlandsflugi en minni íslensk félög sinna þar einnig margvíslegum verkefnum. Þannig sinnir Mýflug leiguflugi til Grænlands.

„Við erum náttúrlega ekki með það stórar vélar að við erum ekki í beinni áætlun hérna. En förum í leiguflug, tökum svona hópa eins og núna sem eru að koma í þessa námu.
Og svolítið í þyrluskíðahópum. Komum með þá á austurströndina, til Kulusuk,“ segir Hallgrímur Páll Leifsson, flugstjóri hjá Mýflugi.
-Þannig að Grænland hefur ennþá þýðingu fyrir íslenskan flugrekstur?
„Já, gríðarlega mikla. Og mikla fyrir okkur flugrekendurna sem höfum verið að gera út frá Akureyri,“ segir Hallgrímur.
Mýflug hefur einnig hlaupið í skarðið í sjúkraflugi fyrir Grænlendinga.
„Að leysa Grænlendingana af, Air Greenland, í sjúkraflugi. Þeir eru með eina svona vél eins og við. Þegar hún þarf í skoðun eða bilar hafa þeir stundum hringt í okkur.“

Hallgrímur segir það einnig gott og skemmtilegt fyrir íslensku flugmennina að fá að kynnast fluginu á Grænlandi. Það sé svolítið frábrugðið því að fljúga á Íslandi. Flugmenn upplifi til dæmis meira frelsi á Grænlandi.
„Umhverfið á Íslandi er svo stjórnað. Þar er allt flugstjórnarrými stjórnað. Hér erum við í óstjórnuðum rýmum meira og minna. Menn tala bara saman til að viðhalda fjarlægðum.“
Og það sé magnað að fljúga innan um stórbrotna tinda Grænlands, yfir firðina og skriðjöklana. Fjöllin séu miklu hærri.

„Þetta er alveg stórkostlegt. Og það væri alveg gaman að koma með sína vél og fljúga hérna í kring, bara með litla vél.“
-Bara einkaflugvél?
„Já, ég held að það væri alveg stórkostlegt að skoða sig um á þessu svæði. Að fljúga hérna yfir, sama hvort það er að vetri eða sumri, þetta er alveg stórbrotið landslag,“ segir flugstjóri Mýflugs.
Í frétt Stöðvar 2 má sjá flug um stórbrotið landslag Suður-Grænlands: