Fótbolti

Dýr­mætt dramamark fyrir Ísak og Val­geir

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson á ferðinni í leiknum við Karlsruhe í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson á ferðinni í leiknum við Karlsruhe í dag. Getty/Philipp von Ditfurth

Eftir þrjá leiki í röð án sigurs vann Íslendingaliðið Düsseldorf afar dýrmætan 3-2 útisigur gegn Karlsruhe í dag, með sigurmarki í uppbótartíma.

Ísak Bergmann Jóhannesson, Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar þeirra í Düsseldorf fögnuðu gríðarlega í leikslok því sigurinn var afar torsóttur. 

Heimamenn komust í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútunum og voru enn tveimur mörkum yfir þegar fyrri hálfleik lauk. Dzenan Pjecinovic minnkaði svo muninn snemma í seinni hálfleik og Dawid Kownacki jafnaði úr umdeildri vítaspyrnu sem hann fiskaði tíu mínútum fyrir leikslok.

Kownacki skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma, með skalla eftir hornspyrnu frá varamanninum Shinta Appelkamp. Valgeir var þá nýfarinn af velli en fagnaði hetjunni Kownacki eins og Ísak sem spilaði allan leikinn. 

Sigurinn kom Düsseldorf úr 9. sæti upp í 5. sæti og er liðið með 30 stig, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Kölnar. Karlsruhe er með 29 stig í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×