Martínez hetja Rauðu djöflanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Man United fögnuðu marki Martínez af lífi af sál.
Leikmenn Man United fögnuðu marki Martínez af lífi af sál. Clive Rose/Getty Images

Manchester United vann 1-0 útisigur á Fulham í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Var þetta fyrsta sinn sem Rauðu djöflarnir halda marki sínu hreinu síðan gegn Everton þann 1. desember í fyrra.

Það verður ekki annað sagt en fyrri hálfleikur hafi verið tímaeyðsla. Færin voru fá ef einhver og bæði lið heldur leiðinleg í sinni nálgun. Það verður ekki sagt að síðari hálfleikur hafi verið mikið fyrir augað, það er þangað til gestirnir komust yfir. 

Það voru tólf mínútur til loka venjulegs leiktíma þegar Alejandro Garnacho komst upp að endalínu og ætlaði að renna boltanum út á varamanninn Toby Collyer. Varnarmaður Fulham náði hins vegar að pota tánni í boltann svo Collyer náði ekki skoti að marki. 

Boltinn barst hins vegar til Lisandro Martínez - sem skoraði glæsilegt mark á Anfield á dögunum og lagði upp sigurmarkið gegn Rangers í vikunni. Martínez lét því ekki bjóða sér skotfæri af 20-25 metrum oftar en einu sinni og þrumaði að marki. Skotið fór í Saša Lukić og flaug þaðan upp í markvinkilinn hægra megin, óverjandi fyrir Bernd Leno í marki Fulham sem náði þó að slæma fingurgómunum í boltann.

Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að jafna en sóknir þeirra voru heldur máttlitlar. Besta færið kom eftir hornspyrn þar sem Collyer las aðstæður frábærlega og bjargaði á línu. Þá hélt Amad að hann hefði tryggt sigurinn með marki í blálokin á uppbótartíma leiksins en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu. Það kom þó ekki að sök þar sem gestirnir héldu út og unnu langþráðan sigur, lokatölur á Craven Cottage 0-1.

Rasmus Höjlund fær ekki mörg færin þessa dagana.Ash Donelon/Getty Images

Það verður ekki tekið af stuðningsfólki gestanna - allavega því sem gerði sér ferð til Lundúna - að það skemmti sér konunglega. Ef til vill var það staðsetning hljóðnemans fyrir sjónvarpsútsendinguna en það heyrðist vel í stuðningsfólki gestanna styðja við bakið á því sem verður að kallast heldur slakt lið Man Utd.

Eftir sigurinn er Man Utd með 29 stig í 12. sæti á meðan Fulham er með 33 stig í 10. sæti.

María og stöllur sáu aldrei til sólar í Manchester

Kvennalið Man United lék einnig í kvöld og fékk Brighton & Hove Albion í heimsókn. María Þórisdóttir, fyrrverandi leikmaður Man Utd, lék allan leikinn í vörn gestanna en gat ekki komið í veg fyrir sigur Rauðu djöflanna.

Hin uppalda Ella Toone braut ísinn strax á 2. mínútu eftir undirbúning hinnar norsku Elisabeth Terland sem gekk í raðir Man Utd frá Brighton fyrir yfirstandandi tímabil. Það var svo strax á 11. mínútu sem Hinata Miyazawa frá Japan tvöfaldaði forystu heimaliðsins eftir sendingu Celin Bizet Ildhusøy sem er einnig frá Noregi líkt og Terland.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og Rauðu djöflarnir leiddu með tveimur þegar síðari hálfleikur hófst. Það var svo Ildhusøy sjálf sem skoraði þriðja og síðasta mark leiksins þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. 

Lokatölur 3-0 og Man United komið upp í 2. sæti deildarinnar með 27 stig, sjö minna en topplið Chelsea þegar 12 umferður eru búnar.

Allt jafnt á Villa Park

Aston Villa og West Ham United gerðu 1-1 jafntefli fyrr í dag. Jacob Ramsey kom Villa yfir snemma leiks eftir undirbúning Ollie Watkins. Bakvörðurinn Emerson jafnaði metin fyrir gestina þegar tuttugu mínútur lifðu leiks.

Gestirnir héldu svo að þeir hefðu stolið sigrinum í lokin þegar Emi Martínez, markvörður Villa, missti boltann klaufalega frá sér en rangstæða dæmd og lokatölur á Villa Park 1-1.

Villa er í 8. sæti með 37 stig á meðan Hamrarnir eru í 14. sæti með 27 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira