Ratcliffe var á Íslandi um miðjan júlí, sömu helgi og England mætti Spáni í úrslitaleik Evrópumótsins. Hann sendi einmitt enska landsliðinu kveðju úr veiðihúsi við Vopnafjörð. Ratcliffe hefur undanfarin ár keypt jarðir á Norðuasturlandi, sem nema ríflega hundrað þúsund hekturum, í gegnum félag sitt, Six Rivers Iceland, sem hefur það að markmiði að vernda villta laxinn í Norður-Atlantshafi.
Ratcliffe var ekki einn á ferð á Íslandi í júlí heldur dvöldu fjögur af sex Glazer-systkinunum hjá honum. Austurfrétt greinir frá.
Bræðurnir Joel, Avram og Bryan og systir þeirra, Darcie, komu til Vopnafjarðar og veiddu þar ásamt Ratcliffe. Samkvæmt Austurfrétt voru Glazer-systkinin hér á landi í nokkra daga.
Um miðjan júlí voru sex einkaþotur á Egilsstaðaflugvelli, þar af ein sem er skráð á félag í Flórída, dvalarstað Glazer-fjölskyldunnar. Fjórar einkaþotanna voru í eigu Ratcliffes.
Hinn 72 ára Ratcliffe og félag hans, INEOS, eignuðust fjórðungshlut í Manchester United í árslok 2023. Ratcliffe og félagar hans tóku við stjórn fótboltamála hjá United og hafa ráðist í mikinn niðurskurð hjá félaginu. Um 250 manns misstu meðal annars vinnuna hjá United.
Síðasta vor varð United bikarmeistari en illa gekk í upphafi þessa tímabils og Erik ten Hag var rekinn sem knattspyrnustjóri liðsins. Við starfi hans tók Ruben Amorim.