Fótbolti

Zidane lík­legastur til að taka við af Deschamps

Sindri Sverrisson skrifar
Zinedine Zidane með Ólympíukyndilinn síðasta sumar. Tekur hann við öðrum kyndli af Didier Deschamps?
Zinedine Zidane með Ólympíukyndilinn síðasta sumar. Tekur hann við öðrum kyndli af Didier Deschamps? Getty/Stephanie Lecocq

Didier Deschamps hefur nú staðfest að hann muni hætta sem landsliðsþjálfari Frakka í fótbolta eftir HM í Ameríku á næsta ári. Zinedine Zidane þykir líklegasti arftaki hans.

Deschamps greindi frá því í dag að hann myndi hætta eftir HM 2026 en þá rennur núgildandi samningur þessa 56 ára gamla þjálfara út.

Frakkar eiga reyndar enn eftir að tryggja sig inn á HM og því ekki útilokað að Deschamps hætti fyrr. Ísland gæti mögulega orðið hindrun í vegi Frakka því liðið sem vinnur einvígi Frakklands og Króatíu, í Þjóðadeildinni í mars, verður í riðli með Íslandi í undankeppninni í haust.

Deschamps tók við franska landsliðinu af Laurent Blanc árið 2012 og undir hans stjórn hefur liðið meðal annars orðið heimsmeistari árið 2018 og unnið Þjóðadeildina 2021, auk silfurs á HM 2022 og EM 2016, og bronsverðlauna á EM í fyrra.

Miðillinn virti L'Equipe í Frakklandi segir að Zidane sé efstur á lista yfir mögulega arftaka Deschamps. Þrjú ár eru síðan Zidane hætti sem þjálfari Real Madrid og þó að hann hafi verið orðaður við ýmis lið hefur hann ekki þjálfað síðan þá. Það má því leiða að því líkum að Zidane, sem varð sannkölluð goðsögn í franska landsliðinu sem leikmaður, bíði eftir því að geta tekið við sem landsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×