Enski boltinn

Salah henti Suarez úr toppsætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar hér einu af fjölmörgum mörkum sínum á þessu tímabili.
Mohamed Salah fagnar hér einu af fjölmörgum mörkum sínum á þessu tímabili. Getty/Liverpool

Mohamed Salah hefur átt magnaðan fyrri hluta á þessu tímabili og hefur hann þegar slegið nokkur met í ensku úrvalsdeildinni.

Salah var með eitt mark og tvær stoðsendingar í 5-0 sigri á West Ham í lokaleik ársins. Liverpool er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni sem og í Meistaradeildinni. Salah á risastóran þátt í því.

Hann hefur komið að marki í síðustu ellefu deildarleikjum, skorað í tíu þeirra, gefið stoðsendingu í sjö þeirra og hann hefur verið bæði með mark og stoðsendingu í sex af þessum ellefu leikjum.

Allt þetta skilaði Salah sautján mörkum og þrettán stoðsendingum fyrir áramót. Hann er bæði markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Egyptinn öflugi varð um leið fyrsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að koma að þrjátíu mörkum í fyrstu átján leikjunum sínum á tímabili.

Með þessu sló hann met annars Liverpool manns. Luis Suarez náði þessu nefnilega í nítján leikjum á 2013-14 tímabilinu. Þá var Liverpool lengi í toppsætinu en missti síðan af titlinum í blálokin. Það verður fróðlegt að sjá hvort gangi betur hjá Salah og félögum að landa titlinum í vor.

Erling Haaland gerði sig líklegan til að ná þessu meti Suárez í hitteðfyrra en endaði á því að koma að sínu þrítugasta marki í leik númer 22.

Salah hafði náði þessu í 26 leikjum tímabilið 2021-22 en bætti sitt persónulega met um átta leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×