Listinn er nokkurn veginn í útgáfuröð en þó er ekki ljóst hvort allar myndirnar komi í bíóhús hérlendis. Síðustu myndir listans eru síðan suma hverjar ekki komnar með neinn útgáfudag.
Eins og gefur að skilja er ekki hægt að fjalla um allar myndirnar sem von er á. Meðal mynda sem komust ekki á blað eru fantasíumyndin The Gorge, vélmennahrollvekjan M3GAN 2.0, hasarmyndin Predator: Badlands og tvær myndir eftir Luca Guadagnino, Queer og After the Hunt auk fjölda annarra.
Paddington í Perú
Þriðja myndin um uppáhalds gleraugnabjörn allra kemur í íslensk kvikmyndahús í dag, fimmtudaginn 16. janúar.
Nú snýr Paddington (Ben Whishaw) aftur á heimaslóðir sínar í Perú til að heimsækja frænkuna Lucy (Imelda Staunton). Með honum í för er Brown-fjölskyldan sem hann hefur búið með frá því hann kom til Bretlands.
Meðal leikara sem koma við sögu er Olivia Colman sem abbadís í perúsku klaustri og Antonio Banderas sem grunsamlegur leiðsögumaður fjölskyldunnar.
Úlfamaðurinn
Ástralski leikstjórinn Leigh Whannell aðlagaði ósýnilega manninn, hið sígilda Universal-skrímsli, að skjánum árið 2020 með hinni æsispennandi The Invisible Man. Nú snýr hann sér að öðru sígildu skrímsli frá stúdíóinu, úlfamanninum.
The Wolf Man kemur líka í íslensk bíóhús í dag og fjallar um mann (Christopher Abbott) sem breytist í varúlf og fer að hrella eiginkonu sína (Julia Garner) og börn.
Sjá einnig: Varúlfar alltaf jafn vinsælir
Varúlfaminnið er auðvitað aldagamalt fyrirbæri og varð sérstaklega vinsælt umfjöllunarefni í þjóðsögum og riddarasögum miðalda. Úlfamaðurinn kom út árið 1941 og var hann þá leikinn af Lon Chanye yngri. Sú mynd naut gríðarlegra vinsælda og hefur síðan getið af sér fjölda framhaldsmynda og endurgerða.
Chalamet sem ungur Dylan
Ævi og ferli tónlistarmannsins Bob Dylan hafa verið gerð skil í hinum ýmsu heimildarmyndum gegnum tíðina og svo kom leikna myndin I'm Not There út 2006 þar sem Dylan var leikinn af sex ólíkum leikurum.
Nú er komin önnur leikin mynd sem fjallar um það þegar nítján ára Dylan (Timothee Chalamet) kemur til New York í upphafi sjöunda áratugarins til að freista gæfunnar.
Myndin segir frá nánum samböndum tónlistarmannsins við Joan Baez (Monica Barbaro) og Sylviu Russo (Elle Fanning) sem byggir á gamalli kærustu Dylans, Suze Rotolo. Þá er fjallað um hraða risu Dylans upp á stjörnuhimininn, óánægju hans með þjóðlagatónlist og umdeildustu ákvörðun tónlistarmannsins: að taka upp rafmagnsgítarinn.
Vestfirskur hryllingur frá 19. öld
The Damned er sálfræðileg hryllingsmynd sem gerist á nítjándu öld á Vestfjörðum og fjallar um ekkjuna Evu sem þarf að taka erfiða ákvörðun þegar erlent selgskip strandar í firðinum.
Eva stendur frammi fyrir erfiðu vali, eiga hún og vinnumenn hennar að koma til bjargar eða forgangsraða eigin velferð. Þjökuð samviskubiti og vaxandi ótta um ómanneskjulega hefnd, takast Eva og vinnumenn hennar, á við afleiðingar gjörða sinna.
The Damned er fyrsta kvikmynd Þórðar Pálssonar og skartar hún Odessu Young og Joe Cole, sem hefur leikið í Peaky Blinders, í aðalhlutverkum.
Myndin var tekin upp á Vestfjörðum síðastliðinn vetur og verður frumsýnd hér á landi 23. janúar næstkomandi.
Apaköttur segir sögu sína
Better Man er ein óvenjulegasta ævisögumynd síðari ára og fjallar um ævi enska popparans Robbie Williams. Hún er óvenjuleg fyrir þær sakir að Robbie birtist sem tölvugerður api í myndinni (en er leikinn af hinum breska Jonno Davies).
Áhorfendur fylgjast með Robbie frá því hann er lítill apaköttur og þar til hann verður heimsfrægur tónlistarmaður, fyrst með strákabandinu Take That og svo þegar hann byrjar sólóferilinn
Leikstjóri myndarinnar er hinn ástralski Michael Gracey sem hóf feril sinn í kvikmyndagerð í tæknibrellumálum og settist í leikstjórastólinn 2017 þegar hann gerði kvikmyndina The Greatest Showman með Hugh Jackman í aðalhlutverki.
Af trailernum að dæma er myndin líka heljarinnar mikið sjónarspil en hún kemur í sýningar í Smárabíói í lok janúar.
Arftaki Kapteinsins í miðju samsæris
Töluverðrar Marvel-þreytu hefur gætt síðustu fjögur ár frá því að stúdíóið batt enda á svokallaðan fasa þrjú með Avengers: Infinity War. Fasi fjögur einkenndist af nýjum hetjum á borð við Eternals og Shang-Chi og ýmsum sjónvarpsþáttum á borð við Loka, She-Hulk og Wandavision á veitunni Disney Plús.
Fasi fimm hefur líka farið brösuglega af stað, bæði The Marvels og Ant-Man 3 rökuðu inn miklu minni pening en búist var við. Hins vegar gekk Deadpool & Wolverine gríðarlega vel í fyrra og bætti upp tap hinna myndanna að einhverju leyti. Í ár er von á þremur nýjum myndum frá Marvel sem vonast er til að muni snúa genginu við.
Sú fyrsta, Captain America: Brave New World, kemur í bíóhús núna í febrúar. Sam Wilson (Anthony Mackie) hefur þar tekið við kapteinshlutverkinu af Steve Rogers og lendir í miðju alþjóðlegs samsæris sem tengist.
Ýmis illmenni koma við sögu í myndinni, Giancarlo Esposito leikur Sidewinder, rauð útgáfa af Hulk kemur við sögu og þá er Jóhannes Haukur Jóhannesson munu leika Koparhaus, sem í teiknimyndunum klæðir sig í snákabúning. Harrison Ford fer einnig með stórt hlutverk í myndinni.
Hanfirsk feðgin á ferð
Rafvirkinn Atli (Björn Hlynur) býr með konu sinni Maríu (Sólveig Guðmundsdóttir) sem er stjörnufræðingur og nítján ára gamalli dóttur þeirra, tónlistarkonunni Önnu (Ísadóra Bjarkardóttir Barney), í Hafnarfirði. María undirbýr ferð inn á hálendið með fjölskyldunni til að ná ljósmynd af halastjörnu sem hún telur sig hafa uppgötvað.
Þegar að ferðinni kemur hafa Atli og Anna lofað sig annað og komast ekki með. Það er afdrífarík breyting sem beinir lífi þeirra inn á nýjan sporbaug.
Fjallið er önnur myndin í fullri lengd sem Ásthildur Kjartansdóttir leikstýrir en fyrsta mynd hennar, Tryggð, kom út 2019. Auk fyrrnefndra leikara fara Elva Ósk Ólafsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Björn Stefánsson, Anna Svava Knútsdóttir, Jóhann Kristófer Stefánsson, Jónmundur Grétarsson, Örn Gauti Jóhannsson, Pétur Eggerz, Halldóra Harðar og Bergur Ebbi Benediktsson með hlutverk í myndinni.
Bridget Jones brjáluð í strákinn
Bridget Jones (Renee Zellweger) snýr aftur á skjáinn í fjórða sinn í Bridget Jones: Mad About the Boy. Hún er einstæð móðir, gengur vel í starfi sínu sem handritshöfundur og er kominn með kærasta (Leo Wodhall) sem er tuttugu árum yngri en hún.
En auðvitað flækjast málin, sjarmerandi kennari (Chiwetel Ejifor) í skóla dóttur hennar kemur þar við sögu og auðvitað skjóta Mark Darcy (Colin Firth) og Daniel Cleaver (Hugh Grant) upp kollinum.
Myndin er framleidd af streymisveitunni Peacock og kemur inn á hana þann 13. febrúar, sjálfan valentínusardaginn. Sama dag kemur hún í kvikmyndahús, þar með talið hér á landi.
Hryllilegur api með málmgjöll
Robbie Williams er ekki eini apinn í Hollywood. Einn óvæntasti smellur síðasta árs var hryllingsmyndinn Longlegs eftir Osgood Perkins og hann er greinilega iðinn við kolann því í febrúar er von á nýrri mynd frá honum, The Monkey.
Myndin byggir á samnefndri smásögu eftir Stephen King frá 1980 og segir frá leikfanga-apa með málmgjöll sem hvílir bölvun á.
Tvíburabræðurnir Hal og Bill (báðir leiknir af Theo James) finna gamlan málmgjallar-apa föður þeirra uppi á háalofti þegar þeir eru börn. Í kjölfarið tekur fólk í kringum þá að deyja á óútskýranlegan hátt. Bræðurnir losa sig við apann, vaxa síðan úr grasi og feta ólíka leið í lífinu.
Einn daginn fer fólk skyndilega að geispa golunni rétt eins og mörgum árum fyrr. Bræðurnir þurfa þá að sameinast á ný og eyðileggja apann fyrir fullt og allt.
Mickey deyr aftur og aftur
Nýjasta myndin frá kóreska leikstjóranum Bong Joon-Ho sem sló í gegn með Parasite árið 2019 heitir Mickey 17. Hann virðist í henni vera kominn í sama sæfæ-gír og í fyrri myndum sínum, Okja og Snowpiercer.
Myndin byggir á vísindaskáldsögunni Mickey 7, gerist í framtíðinni og fjallar um Mickey Barnes (Robert Pattinson) sem vill komast burt af jörðinni og skráir sig því sem „fórnanlegan“ starfskraft hjá stóru geimfyrirtæki.
Mickey er sendur til að stofna nýlendu á ísplánetunni Niflheimi við afar erfiðar aðstæður. Þar kemur í ljós að í hvert sinn sem hann deyr, verður til annað eintak af honum með minningar þess sem dó. Einn daginn gerist það svo að sautjánda eintakið lifir af dauðann en átjánda eintakið fæðist samt sem áður. Fleiri og fleiri eintök fara svo að skjóta upp kollinum og þarf Mickey að takast á við sjálfan sig.
Myndin átti að koma út í mars í fyrra en var af óútskýrðum ásætðum frestað ótímabundið og kemur í staðinn í Sambíóin 6. mars næstkomandi.
Fönisíska ráðabruggið
Spæjaramynd í leikstjórn Wes Anderson með handriti eftir hann sjálfan og Roman Coppola. Það er lítið vitað um myndina nema það að hún fjallar um njósnir, inniheldur stórt feðginasamband og gerist sennilega við Miðjarðarhafinu ef marka má titilinn.
Eins og í fyrri myndum sínum hefur Anderson tekist að sanka að sér ótrúlegu magni af frábærum leikurum.
Héru eru leikarar sem hafa leikið mörgum sinnum fyrir Anderson, svo sem Bill Murray, Scarlett Johansson og Willem Dafoe. Þá leika einnig í myndinni Benicio del Toro í stóru hlutverki, Michael Cera, Riz Ahmed, Tom Hanks, Benedict Cumberbatch, Charlotte Gainsbourg og Bryan Cranston.
Anderson hefur ekki gert spæjaramynd áður svo það verður áhugavert hvernig hann tæklar þá grein, sennilega verður það með miklum Anderson-isma.
Mjallhvít lifnar við
Seinni hluta marsmánuðar lendir Mjallhvít í bíóhúsum hér á landi. Um er að ræða leikna endurgerð á hinni klassísku teiknimynd frá 1937 sem byggði auðvitað á ævintýra Grimms-bræðra.
Ungstirnið Rachel Zegler, sem lék í Westside Story og Hunger Games: The Ballad of Songbirds and Snakes, fer með hlutverk Mjallhvítrar en illa nornin er leikin af hinni ísraelsku Gal Gadot sem er hvað þekktust fyrir að leika Wonder Woman.
Mjallhvít kemur í íslensk kvikmyndahús 20. mars og munu börn landsins örugglega flykkjast í bíó að sjá hana. Gaman verður líka að sjá hver mun tala fyrir Mjallhvíti í íslenskri talsetningu.
Vampírur í Suðurríkjunum
Kvikmyndin Sinners fjallar um tvíburabræður sem snúa aftur í heimabæ sinn til að reyna að snúa við blaðinu en uppgötva að ill öfl bíða þeirra.
Upplýsingar um Sinners hafa verið af skornum skammti til að spilla ekki fyrir áhorfendum en svo virðist sem um sé að ræða vampíru-períódu sem gerist eftir seinni heimsstyrjöld.
Ryan Coogler, sem leikstýrði Creed og báðum myndunum um Svarta pardusinn, skrifar handritið, framleiðir og leikstýrir myndinni og Michael B. Jordan, sem hefur unnið mikið með leikstjóranum, leikur báða tvíburana (sem er greinilega tískufyrirbæri í ár). Sinners kemur í bíó hérlendis um miðjan apríl.
Andhetjur Marvel hópa sig saman
Þrumufleygarnir*, önnur af þremur Marvel-myndum sem koma í bíó 2025, fjallar um hóp andhetja í anda Suicide Squad sem kom út fyrir nokkrum árum.
Meðlimir Þrumufleyganna hafa flestir komið fyrir í fyrri Marvel-myndum eða þáttum og má þar nefna Bucky Barnes (Sebastian Stan), Yelenu Belova (Florence Pugh), Rauða verndarann (David Harbour), Harðstjórann (Olga Kurylenko) og Draug (Hannah John-Kamen). Þá leikur gríngoðsögnin Julia Louise-Dreyfuss yfirmann sveitarinnar.
Af einhverjum ástæðum er titill myndarinnar stjörnumerktur og telja ýmsar það til marks um að titillinn sé ekki endanlegur. Annað hvort taki hópurinn upp nýtt nafn eða þá að í lok myndar sé hann notaður til að kynna einhverjar stórar vendingar í Marvel-heiminum.
Þrumufleygarnir* er frumsýnd hérlendis 30. apríl næstkomandi.
Síðasta ómögulega verkefnið
„Þegar þörfin á vissu er algjör og líkurnar taldar ómögulegar þá fellur verkefnið í hendur hans,“ segir um Ethan Hunt í gríðarlega gírandi trailer að Mission: Impossible - Final Reckoning, áttundu og síðustu myndinni í flokknum um spæjarann geðþekka.
Mission: Impossible Dead Reckoning Part One kom út 2023 og þessi tekur við þar sem hún endaði. Líkt og í síðustu fjórum myndum seríunnar situr Christopher McQuarrie í leikstjórastólnum.
Nákvæmur söguþráður myndarinnar er enn á huldu en eitt er þó víst: Tom Cruise hleypur fullt í myndinni. Þar að auki má sjá ýmis spennandi hasaratriði í trailernum: djúpsjávarbardaga á hafsbotni, sleðaferð um suðurskautið og háloftaglímu á vængjum tvíþekju. Myndin kemur í sýningar hérlendis þann 22. maí næstkomandi.
Líló og Stitch
Bláa ókindin Stitch brotlendir á Hawaii og kynnist þar sex ára gemlingnum Líló í teiknimyndinni Lilo & Stitch (2002). Þau þurfa að takast á við geimverur, félagsráðgja og bekkjarsystur Lílóar.
Nú á að endurgera þessa sígildu teiknimynd. Hingað til hafa slíkar endurgerðir ekki gengið neitt stórkostlega (sjá Konung ljónanna, Mulan og Litlu hafmeyjuna) en sagan af Líló og Stitch er bara svo góð að hún getur ekki klikkað.
Líló og Stitch kemur í bíó sama dag og Final Reckoning svo það er eitthvað fyrir alla í boði þann daginn.
Að temja dreka sinn
Úr leikinni endurgerð Disney-teiknimyndar í leikna endurgerð DreamWorks-teiknimyndar. Nú á að endursegja söguna um drekatemjarann Hiccup Horrendous Haddock III.
Víkingar og drekar hafa verið svarnir óvinir í mörg hundruð ár á eyjunni Berk. Hinn hugvitssami Hiccup storkar þorpi sínu þegar hann vingast við Tannlausan, ógnvekjandi svartan dreka.
Uppvakningar rísa 28 árum síðar
Tímamóta-uppvakningamyndin 28 Days Later kom út árið 2002 og fimm árum síðar kom framhaldsmyndin 28 Weeks Later. Nú er þriðja myndin í röðinni að koma út og gerist 28 árum eftir að vírus slapp úr rannsóknarstofu og hrinti af stað uppvakningafaraldri sem lagði heiminn í rúst.
Hópur eftirlifenda hefur komið sér upp samfélagi á eyju sem er tengd við meginlandið með upphækuðum granda. Einn meðlimur hópsins yfirgefur eyjuna og heldur af stað inn í miðju átakasvæðisins.
Enski leikstjórinn Danny Boyle leikstýrði fyrstu myndinni og er snúinn aftur til að leikstýra þessari. Meðal leikara í myndinni eru Jodie Comer, Aaron Taylor-Johnson, Ralph Fiennes og Cillian Murphy sem snýr aftur í hlutverk sitt í fyrstu myndinni.
Trailer-inn fyrir myndina er afar spennandi, ekki síst vegna þess að takftasta ljóðið „Boots“ eftir Rudyard Kipling ómar undir myndbandinu.
Formúlukappar á fleygiferð
Vinsældir Formúlu 1 hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum, að hluta til þökk sé heimildaþáttunum Drive to Survive sem fjölluðu um stærstu stjörnur formúlunnar. Það hefur því sennilega aldrei verið jafngóður tími fyrir nýja kappakstursmynd en akkúrat núna.
Kvikmyndin F1 fjallar um ökuþórinn Sonny Hayes (Brad Pitt) sem lenti í hræðilegu kappakstursslysi á tíunda áratugnum og hætti í Formúlu 1. Mörgum árum seinna hefur eigandi liðs í Formúlunni samband við Hayes og vill fá hann til að þjálfa ungan og upprennandi ökuþór (Damson Idris).
Leikstjórinn Joseph Kosinski heldur um taumana en hann er ekki alls ókunnugur hraðskreiðum farartækjum eftir að hafa leikstýrt Top Gun: Maverick fyrir tveimur árum.
Meðal annarra leikara í myndinni eru Javier Bardem, Kerry Condon og svo fara ökuþórarnir Lewis Hamilton, Max Verstappen og Oscar Piastri einnig með hlutverk í myndinni.
Ofurmennið endurræst
Til að reyna að leika eftir vinsældir Marvel ákvaðu stjórnendur hjá Warner Bros. að stofna nýtt stúdíó undir stjórn fyrirtækisins sem fengi nafnið DC Studios. Þeir Peter Safran framleiðandi og James Gunn, sem leikstýrði m.a. Guardians of the Galaxy-myndunum, voru fengnir til að stýra stúdóinu og fyrsta verk þeirra var að „endurræsa“ kvikmyndaheim DC.
Fyrsta leikna myndin í þessum nýja heimi verður Superman, ný mynd um ofurmennið, sem fjallar um það hvernig Clark Kent reynir að takast á við kryptónískan uppruna sinn. Með aðalhlutverk í myndinni fara David Corenswet sem Ofurmennið, Rachel Brosnahan sem Lois Lane og Nicolas Hoult sem Lex Luthor.
Það kveður við annan tón en í eldri myndum um ofurhetjuna og virðist heimur myndarinnar eiga að vera teiknimyndalegri en áður. Þá verður töluvert af undarlegum ofurhetjum og illmennum í myndinnni svo sem Mr. Terrific, Green Lantern, Hawkgirl og ofurhundurinn Kryptó.
Á næsta ári mega aðdáendur DC-ofurhetja síðan eiga von á Supergirl: Woman of Tomorrow og Batman II auk fjölda sjónvarpsþáttasería.
Hin fjögur fræknu
Þriðja Marvel-mynd ársins og sennilega sú sem er beðið eftir með einna mestri eftirvæntingu: Fantastic Four: The First Steps.
Fyrir tuttugu árum kom út fyrsta myndin um hin frábæru fjögur með Jessicu Ölbu, Chris Evans og fleirum í aðalhlutverkum og vakti töluverða. Tveimur árum síðar kom framhaldið Fantastic: Rise of the Silver Surfer sem gekk ekki eins vel.
Tilraunir voru gerðar til að endurræsa seríuna með Fantastic Four árið 2015 en hún floppaði algjörlega.
Nú á að reyna það aftur og stórvalalið leikara verið fengið til verksins. Herra frábær verður leikinn af Pedro Pascal, Vanessa Kirby verður Ósýnilega konan, Joseph O'Quinn verður Mennski eldurinn og Ebon Moss-Bachrach verður Fyrirbærið.
Myndin gerist á retró-fútúrískri útgáfu af Jörðinni og þurfa fjórmenningarnir að vernda hana fyrir plánetu-ætunni Galactus (Ralph Ineson) og boðbera hans, Silfer Surfer (Julia Garner).
Bardaginn um Baktan-kross
Síðasta mynd Paul Thomas Anderson, Licorice Pizza, kom út fyrir fjórum árum og aðdáendu leikstjórans því orðnir óþreyjufulli. Í ár er von á nýrri mynd frá leikstjóranum, sem er þekktastur fyrir There Will Be Blood, The Master, Boogie Nights og Magnolia.
Vinnutitill myndarinnar er The Battle of Baktan Cross og mun Baktan Cross þá vera skáldaði bærinn þar sem myndin á sér stað. Hins vegar er það ekki enn komið á hreint og mun titillinn hugsanlega breytast. Þá er talið að myndin byggi á skáldsögunni Vineland eftir Thomas Pynchon sem gerist sumarið 1984 þegar Ronald Reagen er endurkjörinn.
Einvalalið leikara fer með hlutverk í myndinni, þar á meðal Leonardo DiCaprio, Regina Hall, Sean Penn, Alana Haim, Teyana Taylor og Benicio del Toro. Myndin kemur í bíó vestahafs í ágúst.
Fetar í fótspor gríngoðsagnar
Leslie Nielsen gerði hinn seinheppna og vitlausa Frank Drebin að goðsagnakenndri persónu, fyrst í sjónvarpsþáttunum Police Squad! (1982) og svo í þremur myndum, The Naked Gun: From the Files of Police Squad! (1988), The Naked Gun 2½: The Smell of Fear (1991) og Naked Gun 33+1⁄3: The Final Insult (1994).
Síðan þá eru liðin þrjátíu ár og lést Leslie Nielsen árið 2010. Þrátt fyrir það er von á fjórðu myndinni í seríunni, The Naked Gun sem heitir öðrum titli The Naked Gun 4+1⁄4: Law of Toughness.
Sjá einnig: Liam Neeson í nýrri Naked Gun í stað Leslie Nielsen
Enginn annar en Liam Neeson mun leika Frank Drebin sem mörgum hefur þótt undarlegt val í ljósi þess að hann hefur litla sem enga reynslu af grínleik. Honum til halds og trausts verður Pamela Anderson sem virðist vera að eiga stórt „comeback“-ár. Myndinni verður frumsýnd vestanhafs í ágúst.
Kendrick og South Park-bræður í eina sæng
Matt Stone og Trey Parker eru þekktastir fyrir að hafa skapað grínþættina South Park, sem hafa verið í gangi frá því 1997, en þeir hafa líka gert nokkrar kvikmyndir. Fyrir utan Sout Park-myndina Bigger, Longer & Uncut (1999) má nefna Orgazmo (1997) og Team America: World Police (2004).
Núna hafa þeir fengið rapparann og Pulitzer-verðlaunahafann Kendrick Lamar með sér í lið til að gera mynd sem er enn óvitað hvað mun heita.
Myndin segir frá ungum þeldökkum manni sem vinnur sem starfsnemi við að leika þræl á lifandi sögusafni (e living history museum). Hann kemst að því að hvít kærasta sín átti forfeður sem höfðu átt forfeður hans sem þræla.
Það verður áhugavert að sjá hvernig Kendrick Lamar, sem er nýlega búinn að gefa út plötu og mun sjá um hálfleikssýningu Ofurskálarinnar, kemur að myndinni. Hvort hann sé bara að framleiða hana eða taki líka þátt í handritaskrifum, lagasmíðum eða jafnvel leiki í henni.
Eitt er þó víst, áhorfendur mega eiga von á hárbeittri ádeilu með miklum skammti af gríni. Hins vegar liggur ekki fyrir hvenær myndin kemur út.
Brúður skrímslisins aftur á skjáinn
Frankenstein og brúður hans hafa margoft verið aðlöguð að skjánum. Fyrst kom Frankenstein árið 1931 og fjórum árum seinna kom Bride of Frankenstein, sem byggði þó að miklu leyti á bókinni eftir Mary Shelley.
Í ár er von á tveimur kvikmyndum sem byggja á sögu Shelley.
Leikkonan Maggie Gyllenhaal hefur nýlega snúið sér að leikstjórn og var The Lost Daughter (2021), sem byggði á bók Elenu Ferrante, frumraun hennar í leikstjórastólnum. Nú er von á annarri mynd frá henni, The Bride!, sem byggir að miklu leyti á myndinni frá 1935.
Gyllenhaal hefur fengið ýmsa góða leikara með sér í lið, Jessie Buckley mun leikar brúðina og Christian Bale verður skrímslið. Auk þeirra leika Penélope Cruz, Peter Sarsgaard, Annette Bening og Jake Gyllenhaal í myndinni.
Hlaupið áhorfendum til skemmtunar
Stephen King gaf út dystópísku skáldsöguna The Running Man undir dulnefninu Richard Bachmann árið 1982 og fimm árum síðar kom út samnefnd mynd með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Myndin naut ágætra vinsælda en hlaut ekkert sérstaka dóma gagnrýnenda.
Nú á að reyna aftur að aðlaga bókina að skjánum og fær enski leikstjórinn Edar Wright, sem gerði Shaun of the Dead, Hot Fuzz og Baby Driver, það hlutverk.
Glen Powell, sem hefur skotist upp á stjörnuhimininn á síðustu tveimur árum, leikur söguhetjuna en auk hans leika í myndinni Michael Cera, Josh Brolin, Katy O'Brian, William H. Macy og Lee Pace.
Myndin ku vera dyggari söguþræði og tóni bókarinar en aðlögunin frá 1987. Myndin gerist árið 2025 í dystópísku einræðisríki og fjallar um raunveruleikaþáttinn The Running Man sem gengur út á það að þátttakendur eru eltir uppi af morðóðum veiðimönnum og vinnur síðasti eftirlifandinn til verðlaun.
Myndir og þættir um eltingar- og útrýmingarleiki hafa verið vinsælar á undanförnum árum samanber Squid Game, Hunger Games-seríuna og hryllingsmyndina Ready or Not.
Nútímavestri um Q-Anon
Bandaríski leikstjórinn Ari Aster kom sér á kortið með sálfræðihrollverkjunni Hereditary, með Toni Colette og Alex Wolff, árið 2018. Strax ári síðar kom út sumarsólstöðuhrollvekjan Midsommar með Florence Pugh í aðalhlutverki og vakti ekki minni lukku.
Súrrealíska tragikómedían Beau is Afraid kom síðan út 2023 með Joaquin Phoenix. Aster lýsti myndinni bæði sem martraðarkómedíu og Hringadróttinssögu gyðinga. Hún fékk ágætis dóma en floppaði algjörlega.
Aster er þó hvergi af baki dottinn og í ár er von á myndinni Eddington sem hefur verið lýst sem nútímavestra sem gerist í Nýju-Mexíkó.
Myndin fjallar um fógeta (Phoenix) og konu hans (Emma Stone), bæjarstjórann á staðnum (Pedro Pascal) og Q-anon-liða í bænum. Eitthvað hefur verið pískrað um að myndin gerist í Covid-faraldrinum og að í henni taki uppvakningar að ganga aftur.
Forstjórinn er víst geimvera
Kvikmyndin Bugonia er grínmynd með vísindaskáldsögulegu ívafi sem fjallar um tvo samsæriskenningasjúka unga menn sem ræna forstjóra hjá stóru fyrirtæki í þeirri trú að hún sé geimvera.
Myndin er endurgerð á suðurkóresku grínmyndinni Save the Green Planet! og er leikstýrt af hinum gríska Yorgos Lanthimos sem leikstýrði síðast Kinds of Kindness og þar áður Poor Things og The Favourite.
Emma Stone leikur forstjórann sem er rænt og er þetta fjórða myndin í röð sem hún og Lanthimos vinna saman að. Þá er annar ungu mannanna leikinn af Jesse Plemons en hann lék líka í síðustu mynd Lanthimos. Bugonia verður frumsýnd í byrjun nóvember vestanhafs og vonandi ekki mikið seinna hérlendis.
Annar Frankenstein til
Önnur myndin í ár sem fjallar um Frankenstein og skrímsli hans. Guillermo del Toro sem er þekktur skrímslaunnandi (sjá Hellboy, The Shape of Water, Pan‘s Labyrinth og Pacific Rim) er búinn að reyna að koma mynd sinni um skrímsli Shelley í loftið frá því 2007 og loksins er það að takast.
Del Toro hefur áður sagst vilja segja sögu Frankenstein í tveimur til þremur myndum en virðist ætla að láta eina mynd nægja, allavega miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.
Íslandsvinurinn Andrew Garfield átti að leika skrímslið en ungstirnið Jacob Elordi fékk hlutverkið á endanum vegna skipulagsáreksturs Garfield. Þá verður Oscar Isaac í hlutverki Victors Frankenstein og öskurdrottningin Mia Goth verður einnig í stóru hlutverki.
Þeim til halds og trausts verða Christoph Waltz, Lars Mikkelsen, Charles Dance og Ralph Ineson sem leikur nú í hverjum hryllingshittaranum á fætur öðrum. Myndin kemur út á Netflix einhvern tímann á þessu ári en ekki liggur fyrir hvenær.
Hafnaboltamaður í ólgusjó
Darren Aronofsky fylgir eftir Hvalnum, sem Brendan Fraser lék eftirminnilega, frá 2022 með glæpaspennutryllinum Caught Stealing.
Myndin fjallar um útbrunninn fyrrverandi hafnaboltamann að nafni Hank Thompson (Austin Butler) sem kemst í kynni við undirheima New York-borgar á tíunda áratug síðustu aldar.
Auk Butler er fjöldi ágætis leikara í myndinni. Nokkrar myndir hafa náðst af Matt Smith sem virðist leika pönkara með rosalegan hanakamb. Auk hans má nefna Zoë Kravitz, Reginu King, Liev Schreiber og Vincent D'Onofrio. Sömuleiðis leika tónlistarmennirnir Bad Bunny og Action Bronson í myndinni.
Eldur og aska á Pandóru
Þriðja Avatar-myndin var tekin upp á sama tíma og Avatar: The Way of Water sem kom út um jólin 2022. Nú þremur árum síðar er loksins von á Avatar: Fire and Ash.
Talað hefur verið um að myndirnar snúist í kringum náttúruöflin fjögur, fyrsta myndin snerist í kringum loft, önnur um vatn og sú þriðja fjallar um eld. Í myndinni tekst fjölskylda Jake Sully á við Na-vi-verur sem andstæðinga í fyrsta sinn.
Mangkwan-klanið, öðru nafni ösku-ættbálkurinn, er harðgerður ættbálkur sem hefur mátt þola miklar raunir vegna eldsumbrota og svífst einskis til að lifa af á Pandóru. Eldur er kjarninn í þeirra menningu.
Avatar: Fire and Ash kemur í bíó rétt fyrir jól um allan heim og mun sennilega slá einhver áhorfendamet ef Cameron er samur við sig.
Hnífasettið fer ört stækkandi
Fyrir sex árum síðan kom út morðgátan Knives Out með stórvalaliði leikara og Daniel Craig í aðalhlutverki spæjarans Benoit Blanc. Að þremur árum liðnum kom út Glass Onion: A Knives Out Mystery þar sem Benoit Blanc rannsakaði morð á einkaeyju milljarðamærings.
Nú eru liðin þrjú ár til og von á þriðju myndinni um Benoit Blanc og morðrannsóknir hans en hún heitir Wake Up Dead Man: A Knives Out Mystery.
Söguþráðurinn er auðvitað á huldu sem og flest annað en líkt og í fyrri myndum hefur leikstjórinn Rian Johnson sankað að sér öflugum leikurum á borð við Andrew Scott, Glenn Close, Kerry Washington, Josh Brolin, Jeremy Renner, Cailee Spaeny, Josh O’Connor, Milu Kunis og Thomas Haden Church.
Myndin er framleidd af Netflix eins og hinar tvær og mun líklega aðeins koma á veituna en ekki í kvikmyndahús. Hvenær það verður er ekki komið í ljós.
Ofurþunn motta, víð jakkaföt og borðtennis
Safdie-bræður spruttu fram á sjónarsviðið árið 2017 með hinni æsispennandi Good Time með Robert Pattinson í aðalhlutverki og toppuðu sig í spennunni með Uncut Gems tveimur árum síðar.
Bræðurnir hafa núna farið hvor í sína áttina og ákveðið að vera sjálfstæðir leikstjórar en ekki samhangandi. Fyrsta leikstjórnarverkefni Josh Safdie er borðtennismyndin Marty Supreme þar sem Timothée Chalamet leikur aðalhlutverkið prýddur þunnri mottu.
Myndin byggir lauslega á ævi borðtennisleikarans Marty Reisman sem byrjaði ferilinn sem tennis-höstler á götum Manhattan áður en hann vann fimm sinnum til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í borðtennis frá 1948 til 1952. Hann varð síðar Bandaríkjameistari árin 1958 og 1960 og stofnaði síðan bardagahring undir lok ferilsins.
Auk Chalaméet leika Gwyneth Paltrow, Tyler the Creator, Penn Jillette og Abel Ferrara í myndinni sem verður frumsýnd á jóladag vestanhafs og kemur vonandi til landsins fyrir áramót.
Höggþungur Steini í fíknivanda
Hinn bróðirinn, Benny Safdie, er líka að leikstýra sinni fyrstu mynd í ár og sú er líka íþróttamynd sem byggir á raunverulegri persónu.
The Smashing Machine fjallar um ævi MMA-bardagamannsins Mark Kerr sem gerði það gott í UFC undir lok tíunda áratugarins og leiddist út í verkjalyfjafíkn. Dwayne Johnson leikur Kerr og Emily Blunt leikur þáverandi kærustu hans, Dawn Staples.
Titill myndarinnar er dreginn af viðurnefni Kerr sem vegna sprengikrafts síns og höggþyngdar var kallaður Smashing Machine.
Ekki nóg með að bræðurnir séu báðir að leikstýra íþróttamyndum heldur stefnir allt í að myndirnar komi út á svipuðum tíma í kringum næstu jól. Þeir munu því án efa bítast um bíógesti og athygli.