„Við erum gríðarlega ánægð með að hafa tekist að fá hingað Loga Róbertsson, einn hæfileikaríkasta, unga leikmann Íslands,“ segir Sasa Bjelanovic, yfirmaður íþróttamála hjá Istra, á heimasíðu félagsins.
Logi skrifaði undir samning við Istra sem gildir til ársins 2028. Á sama tíma tilkynnti félagið um endurkomu þjálfarans Gonzalo García sem gerði góða hluti með liðið á árunum 2021-23.
Þrátt fyrir að vera enn aðeins tvítugur hefur Logi leikið áttatíu leiki í efstu deild hér á landi, þann fyrsta þegar hann var aðeins 15 ára gamall.
Þá hefur hann leikið 31 leik fyrir yngri landslið Íslands og hans fyrsti og eini A-landsleikur til þessa var vináttulandsleikur gegn Hondúras í byrjun þessa árs.
Byrjar á Dinamo Zagreb
Eftir þrjú jafntefli í röð í síðustu leikjum fyrir vetrarfrí situr Istra í 8. sæti af tíu liðum króatísku úrvalsdeildarinnnar, með 19 stig eftir 18 leiki, fjórum stigum frá fallsæti. Félagið hefur nú eins og fyrr segir skipt um þjálfara og endurheimt Gonzalo García sem var einu sæti frá því að koma liðinu í Evrópukeppni árið 2023.
Garcia mun því stýra Istra í fyrsta leik eftir vetrarfríið sem verður á útivelli gegn stórliði Dinamo Zagreb 25. janúar.