Fótbolti

Sara Björk á skotskónum í Sádi-Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu sem var það þriðja á tímabilinu.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu sem var það þriðja á tímabilinu. @qadsiahwfc

Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði í gærkvöldi með liði sínu Al Qadsiah í sádiarabíska fótboltanum.

Al Qadsiah vann þá 9-2 stórsigur á botnliði Al Taraji í áttundu umferð deildarinnar. Sigurinn skilar Söru og félögum upp í fjórða sætið en það er síðan bara eitt stig upp í þriðja sætið.

Sara innsiglaði sigurinn með því að skora níunda mark síns liðs í uppbótatíma. 

Samfélagsmiðlafólkið hjá Al Qadsiah var ánægt með okkar konu og birti myndir af íslenska miðjumanninum fagna marki sínu eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sara fékk stoðsendingu frá Léu Le Garrec sem átti alls fimm stoðsendingar í leiknum.

Þetta var þriðja mark Söru á tímabilinu í átta deildarleikjum.

Hún skoraði einnig í 5-1 sigri á Al Ula um miðjan nóvember og í 2-1 tapi á móti Al Nassr í byrjun október. Al Nassr er með fullt hús á toppi deildarinnar.

Þetta er það mesta sem Sara hefur skorað á einu tímabili síðan hún skoraði þrjú deildarmörk fyrir Lyon leiktíðina 2020-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×