Eastham lék nítján landsleiki fyrir enska landsliðið en enginn þeirra kom þó á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Englandi fyrir 58 árum. Hann var engu að síður í hóp enska liðsins á mótinu.
Enska knattspyrnusambandið minnist Eastham á miðlum sínum og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.
Eastham spilaði með Newcastle United og Arsenal áður en Stoke keypti hann skömmu eftir heimsmeistaramótið 1966.
Eastham lék alls 194 leiki fyrir Stoke og tryggði þeim enska deildabikarinn með því að skora sigurmarkið í sigri á Chelsea á Wembley árið 1972.
Eastham vann líka sigur í dómsalnum 1963 en það mál átti eftir að auðvelda leikmönnum að skipta um félög í enska boltanum.
Eastham lék sinn síðasta leik árið 1974. Leikmenn Stoke munu spila með sorgarbönd í dag og félagið ætlar síðan að minnast hans sérstaklega í leiknum á móti Sheffield Wednesday á öðrum degi jóla.