Þegar fimm mínútur voru eftir af Manchester-slagnum á Etihad í gær leiddi City, 1-0. Nunes átti þá slaka sendingu til baka á markvörðinn Ederson. Amad Diallo komst inn í sendinguna og Nunes braut svo á honum og vítaspyrna var dæmd.
Bruno Fernandes fór á punktinn, skoraði og jafnaði í 1-1. Diallo skoraði svo sigurmark United skömmu síðar.
Þrátt fyrir mistökin stóru fékk Nunes 9,22 í einkunn fyrir frammistöðu sína hjá BBC. Það voru þó ekki blaðamenn breska ríkisútvarpsins sem gáfu honum þá einkunn heldur var þetta meðaltal einkunna lesenda vefsíðu BBC.
Ætla má að kátir stuðningsmenn United hafi verið duglegir að gefa Nunes háa einkunn enda átti hann stóran þátt í sigri Rauðu djöflana.
City gengur allt í mót þessa dagana og hefur aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum sínum. Liðið er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, níu stigum á eftir toppliði Liverpool.