Enski boltinn

Furðu­legt fagn sem enginn skilur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tobi Adebayo-Rowling fagnaði marki sínu með mjög sérstökum hætti.
Tobi Adebayo-Rowling fagnaði marki sínu með mjög sérstökum hætti. Instagram

Enski fótboltamaðurinn Tobi Adebayo-Rowling var á skotskónum með liði sínu á dögunum en hvað hann gerði strax á eftir vakti upp spurningar.

Adebayo-Rowling skoraði fyrra mark Rochdale í 2-0 sigri á Leamington í FA Trophy bikarkeppninni sem er bikarkeppni neðri deildarliða í Englandi.

Markið skoraði hann á 42. mínútu en liðið bætti síðan við öðru marki eftir hlé.

Adebayo-Rowling, sem spilar sem bakvörður, var á réttum stað eftir hornspyrnu og kom boltanum yfir línuna. Þetta var hans fyrsta mark á tímabilinu og sá var kátur.

Eftir markið þó fór hann á mikinn sprett, hljóp fyrst út að hliðarlínunni og svo allan völlinn á enda. Hann hætti ekki þar heldur stökk yfir girðinguna og endaði fyrir framan tré fyrir aftan völlinn.

Adebayo-Rowling kom þá loksins til baka en liðsfélagarnir hans voru fljótir að hætta að skipta sér að honum eftir að hann hljóp allan völlinn á enda.

Dómari leiksins skráði ekki aðeins markið á Adebayo-Rowling heldur gaf honum einnig spjald fyrir fagnaðarlætin furðulegu sem má sjá hérna í frétt Sportbible fyrir neðan.

Sumir ganga svo langt að segja að þetta sé mögulega furðulegasta gula spjald sögunnar. Þetta er í það minnsta furðulegt fagn sem enginn skilur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×