Enski boltinn

Guardiola: Man. City verður síðasta fé­lagið sem ég stýri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola hefur gert Manchester City að Englandsmeisturum undanfarin fjögur ár en það gengur ekki eins vel á þessu tímabili.
Pep Guardiola hefur gert Manchester City að Englandsmeisturum undanfarin fjögur ár en það gengur ekki eins vel á þessu tímabili. Getty/Robbie Jay Barratt

Pep Guardiola framlengdi nýverið samning sinn við Manchester City um tvö ár og nú hefur spænski knattspyrnustjórinn lýst því yfir að hann muni ekki taka knattspyrnustjórastarfi hjá öðru félagi.

Hinn 53 ára gamli Guardiola hefur verið hjá Manchetser City frá árinu 2016 en undir hans stjórn hefur félagið orðið sex sinnum Englandsmeistari á síðustu sjö árum þar af undanfarin fjögur ár.

Þegar nýi samningur Guardiola rennur út sumarið 2027 þá hefur hann stýrt félaginu í meira en áratug.

Guardiola ætlar ekki að leita sér að nýju félagi þegar tíma hans hjá City lýkur.

„Manchester City verður síðasta félagið sem ég stýri. Ég er ekki að tala um framtíð mína að öðru leyti en að ég ætla ekki að yfirgefa Man. City, fara til annars lands og sinna sama starfi og núna. Það er pottþétt að það gerist ekki,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi í dag en Fabrizio Romano segir frá.

„Ég ætti ekki til orku í slíkt. Hugsunin um að byrja á einhverju nýju annars staðar með allar þær æfingar sem þurfti til. Nei, nei,“ sagði Guardiola.

„Kannski landslið en það er allt öðruvísi,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×