Enski boltinn

Gagn­rýnir stjórn eigin fé­lags

Aron Guðmundsson skrifar
Cristian Romero, varnarmaður Tottenham tjáði sig ansi hispurslaust við spænska miðil.
Cristian Romero, varnarmaður Tottenham tjáði sig ansi hispurslaust við spænska miðil. Vísir/Getty

Cristian Romero, varnar­maður enska úr­vals­deildar­félagsins Totten­ham gagn­rýnir stjórn félagsins fyrir að hafa ekki fjár­fest nógu mikið í leik­manna­hópi félagsins fyrir yfir­standandi tíma­bil.

Gagnrýnina setti hann fram í viðtali við spænska miðilinn Telemundo Deportes eftir nýlegt 4-3 tap Tottenham gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en það var BBC sem greindi frá. Segir Romero að skortur á fjárfestingu í nýjum leikmönnum sé að valda því að Tottenham sé nú að fjarlægjast liðin fyrir ofan sig. 

„Manchester City er samkeppnishæft á hverju ári, við sjáum hvernig Liverpool styrkir sinn hóp. Chelsea styrkir sinn hóp en gekk ekki vel fyrst. Þeir styrkja hann enn frekar og eru farnir að skila úrslitum. Það eigum við að gera,“ segir Romero í samtali við Telemundo Deportes. 

Tottenham er sem stendur í 11.sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Menn verða að átta sig á að eitthvað er að. Vonandi mun stjórnin átta sig á því.“

Pressan er orðin mikil á Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Tottenham en Romero vill ekki skella sökinni á hann.

„Síðustu ár hefur þetta verið sama sagan. Fyrst eru það leikmenn, svo breytingar á þjálfarateymi og alltaf þeir sömu látnir taka ábyrgð. Vonandi átta þeir sig á því hver ber ábyrgðina í raun og veru. Þá getum við horft fram veginn. Þetta er fallegt félag og með alla umgjörðina hér er þetta félag sem ætti að vera að berjast um titla á ári hverju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×