Enski boltinn

Fór að rífast við á­horf­endur eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenhan, ræðir hér við ósátta stuðningsmenn eftir tap fyrir Bournemouth á Vitality leikvanginum í gær.
Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenhan, ræðir hér við ósátta stuðningsmenn eftir tap fyrir Bournemouth á Vitality leikvanginum í gær. Getty/Michael Steele

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, fór að skipta sér að áhorfendum eftir sáran tapleik á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Þetta var sjötta deildatap Tottenham í fjórtán leikjum á tímabilinu en liðið situr í tíunda sæti deildarinnar.

Stuðningsmenn Tottenham voru mjög ósáttir eftir leikinn og öskruðu reiðilega í átt að stjóra sínum.

Ástralinn tók þá upp á því að benda í átt að þeim og að ganga síðan yfir allan völlinn til þeirra. Þegar þangað var komið fór Postecoglou síðan að rífast við stuðningsmennina. Öryggisverðir reyndu að fá hinn 59 ára gamla Postecoglou til að fara í burtu sem hann gerði á endanum.

„Þeir voru vonsviknir og það réttilega, sagði Ange Postecoglou á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Þeir gáfu mér bersögla gagnrýni og ég hlustaði á það,“ sagði Postecoglou.

„Ég var ekki hrifinn af því sem þeir voru að segja af því að ég er manneskja. Þú verður samt að kyngja slíku,“ sagði Postecoglou.

„Ég hef verið það lengi í þessu til að vita hvað gerist þegar ekki gengur vel og pirringurinn og vonbrigðin taka yfir. Þeir eiga rétt á því að vera vonsviknir því við misstum þennan leik frá okkur. Það er samt allt í góðu,“ sagði Postecoglou.

„Það eina sem ég get sagt er að ég er virkilega vonsvikinn sjálfur en ég er líka staðráðinn í að rétta okkur af og mun halda áfram að berjast fyrir því,“ sagði Postecoglou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×