Enski boltinn

Nicolas Jover er nýja hetjan hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Jover kemur skilaboðum til leikmanna Arsenal fyrir eina hornspyrnu liðsins en knattspyrnustjórinn Mikel Arteta fylgist með.
Nicolas Jover kemur skilaboðum til leikmanna Arsenal fyrir eina hornspyrnu liðsins en knattspyrnustjórinn Mikel Arteta fylgist með. Getty/Mike Egerton

Arsenal vann 2-0 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en bæði mörkin i leiknum komu eftir hornspyrnur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á tímabilinu þar sem föstu leikatriðin eru að skila Arsenal dýrmætum sigrum eða stigum.

Fyrra markið skoraði Jurrien Timber með skalla eftir hornspyrnu Declan Rice en það síðara skoraði William Saliba eftir að Thomas Partey skallaði hornspyrnu Bukayo Saka í hann.

Föstu leikatriðin eru stór þáttur í leik liðsins en Arsenal átti fleiri skot eftir hornspyrnur (7) en úr opnum leik (6) í þessum leik á móti United í gærkvöldi.

Eftir leikinn hrósaði knattspyrnustjórinn Mikel Arteta líka vinnu Nicolas Jover, sem er er Sölvi Geir Ottesen þeirra Arsenal manna.

Jover ber ábyrgð á föstu leikatriðum liðsins og er nýja hetjan hjá Arsenal.

„Hann og þjálfarateymið hafa fengið leikmenn okkar til að trúa því að það er hægt að vinna fótboltaleiki á marga vegu. Það er mjög áhrifamikið og hefur gefið okkur mikið. Ég vil því hrósa þeim,“ sagði Arteta.

Jover er 43 ára gamall Frakki sem fæddist í Þýskalandi. Hann var þjálfari fastra leikatriða hjá bæði Brentford og Manchester City áður en hann kom til Arsenal.

Samningur hans við City endaði sumarið 2021 og Mikel Arteta, sem þekkti hann frá City, fékk hann til að koma til Arsenal.

Á síðustu leiktíð skoraði Arsenal tuttugu mörk eftir föst leikatriði og þar eru vítaspyrnur ekki taldar með. Sextán þeirra komu eftir horn sem var metjöfnun í ensku úrvalsdeildinni.

Liðið hefur haldið uppteknum hætti á þessu tímabili.

Arsenal hefur nú skorað 21 mark eftir hornspyrnur frá byrjun síðasta tímabils. Declan Rice og Bukayo Saka eru báðir með sjö stoðsendingar í þessum mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×