Fótbolti

Ten Hag gæti orðið sam­starfs­maður Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og Erik ten Hag þegar þeir voru knattspyrnustjórar Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Jürgen Klopp og Erik ten Hag þegar þeir voru knattspyrnustjórar Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Stu Forster

Þýska félagið RB Leipzig er sagt vera íhuga það að skipta um þjálfara hjá sér og að stjórnarmenn félagsins horfi í staðinn til fyrrum knattspyrnustjóra Manchester United.

Marco Rose yrði þá rekinn og samkvæmt frétt Patrick Berger hjá Sky í Þýskalandi þá er áhugi hjá RB Leipzig að ráða í staðinn Erik ten Hag.

Ten Hag missti starfið sitt hjá Manchester United í lok október eftir skelfilegt gengi á tímabilinu.

RB Leipzig er eins og er í fjórða sæti þýsku deildarinnar en hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum. Liðið tapaði 5-1 á móti Wolfsburg um helgina og fékk á sig fjögur mörk í tapleik í leiknum á undan.

Fari svo að Ten Hag taki við þýska liðinu þá verður hann orðinn samstarfsmaður Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóra Liverpool.

Klopp tekur í janúar við starfi yfirmanns fótboltamála hjá Red Bull fyrirtækinu sem á fótboltafélög út um allan heim. Þar á meðal er þetta RB Leipzig lið í Þýskalandi.

Klopp mun því geta haft mikil áhrif á allar ákvarðanir sem eru teknar í kringum RB Leipzig.

Það væri vissulega athyglisvert að sjá þá Klopp og Ten Hag vinna saman í að gera fótboltalið Leipzig borgar betra. Þetta eru þó enn bara sögusagnir en þær vekja vissulega talsverða athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×