Veður

Stöku él og vaxandi norð­austan­átt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður víða í kringum frostmark.
Hiti verður víða í kringum frostmark. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir stöku éljum fram eftir degi en vaxandi norðaustanátt þegar líður á daginn.

Á vef Veðurstofunnar segir að úrkoma komi inn á land seinnipartinn, fyrst suðaustantil, ýmist í formi rigningar eða slyddu en snjókomu inn til landsins. Hiti verður kringum frostmark.

„Í nótt verður víða snjókoma eða slydda og vindáttin verður smám saman norðlægari. Einna helst að það nái að vera rigning við ströndina á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Áþekkt veður á morgun, fimmtudag en vindáttin verður orðið norðvestan og áfram strekkingur. Í raun má búast við svipuðu veðri á föstudaginn líka en heldur minni ofankoma og kólnar einnig dálítið. Á Laugardag gera spár hins vegar ráð fyrir að lægi víðast hvar og létti til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Gera má ráð fyrir að úrkoma komi inn á land seinnipartinn.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Norðan og norðvestan 8-18 m/s, hvassast austast. Slydda eða rigning, en snjókoma norðvestantil. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag: Norðan og norðvestan 10-18 m/s og snjókoma eða éljagangur, en bjart með köflum sunnan heiða. Frost um allt land.

Á laugardag: Hægt minnkandi norðvestanátt og dregur úr ofankomu fyrir norðan, en víða bjart syðra. Kalt í veðri.

Á sunnudag: Vaxandi sunnanátt með vætu og hlýnandi veðri vestantil seinnipartinn.

Á mánudag: Suðlæg átt, vætusamt og milt um allt land.

Á þriðjudag: Líklega suðvestanátt með skúrum eða éljum, en yfirleitt þurrt um landið austanvert. Kólnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×