Enski boltinn

Reiddist frétta­manni: Veist við hvern þú ert að tala

Sindri Sverrisson skrifar
Ruben Dias og félagar í Manchester City eru vanir því að vinna flesta leiki en hafa nú ekki unnið í sjö leikjum í röð.
Ruben Dias og félagar í Manchester City eru vanir því að vinna flesta leiki en hafa nú ekki unnið í sjö leikjum í röð. getty/Carl Recine

Rúben Dias, varnarmaður Manchester City, reiddist fréttamanni eftir ítrekaðar spurningar um það hvernig leikmenn liðsins reyndu að takast á við versta gengi þess í háa herrans tíð.

Leikmenn Manchester City hafa aldrei gengið í gegnum eins erfiða tíma og nú með liðinu en eftir tapið gegn Liverpool á sunnudaginn er City ellefu stigum frá toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

City hefur ekki unnið í síðustu sjö leikjum sínum og tapað sex þeirra. Um þetta spurði norski fréttamaðurinn Jan Aage Fjortoft, fyrrverandi framherji í ensku úrvalsdeildinni, í viðtali hjá Viaplay eftir leikinn á Anfield.

Fjortoft vildi vita hvernig leikmenn öxluðu ábyrgð í þessum aðstæðum, og hvort þeir hefðu til dæmis sjálfir tekið upp á því að halda liðsfundi til að fara yfir stöðuna. Dias virtist allt annað en sáttur við þessar spurningar.

„Þú veist að þú ert að tala við einn af leikmönnum eins af liðunum í heiminum sem unnið hafa mest á síðustu árum?“ spurði Dias.

„Hugsaðu út í það og vertu viss um að við vitum hvernig á að takast á við þetta,“ bætti hann við.

Fjortoft lét stælana í Dias ekki koma sér úr jafnvægi og benti á að þessi sjö leikja törn án sigurs væri algjört einsdæmi hjá City undir stjórn Pep Guardiola. Þess vegna vildi hann vita hvað væri að fara í gegnum hausinn á leikmönnum.

„Ekkert mál. Bara næsti leikur,“ sagði Dias stuttorður en næsti leikur City er gegn Nottingham Forest annað kvöld. Liðið á svo útileik við Crystal Palace áður en við taka leikir við Juventus og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×