Ísak Bergmann Jóhanneson skoraði fyrra markið í 2-2 jafntefli á móti Nürnberg.
Düsseldorf hafði ekki unnið í síðustu fjórum leikjum og aðeins náð í eitt stig af tólf mögulegum. Það stefndi líka í tap í dag en heimamenn skoruðu sjálfsmark í uppbótatíma og tryggðu Düsseldorf stig.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði fyrra mark Düsseldorf úr vítaspyrnu á 67. mínútu og jafnaði þá metin í 1-1.
Nürnberg komst í 1-0 á 15. mínútu með marki Finn Jeltsch og svo var einnig mark dæmt af liðinu í fyrri hálfleik.
Nürnberg fékk síðan vítaspyrnu á 59. mínútu en Florian Kastenmeier varði hana frá Julian Justvan.
Stuttu síðar jafnaði Ísak og stig var í sjónmáli. Stefanos Tzimas kom Nürnberg aftur yfir á 85. mínútu og þá stefndi í heimasigur.
Lukkan var aftur á móti með Düsseldorf og ekki með Julian Justvan. Hann klúðraði víti fyrr í leiknum og var síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark í lokin.
Ísak Bergmann og Valgeir Lunddal Friðriksson voru báðir í byrjunarliðinu hjá Düsseldorf. Valgeir fór af velli á 87. mínútu.