Nýlega hefur verið fjallað um hækkun raforkuverðs á Íslandi og meðal annars er talið að raforkuverð til ylræktar gæti hækkað um fjórðung á næsta ári. Þar er reyndar rétt að ítreka að raforkuverðið sjálft er um þriðjungur af reikningi notandans.
Lágt raforkuverð á Íslandi er ekki lögmál og raforkuverð er ekki dregið upp úr hatti frekar en verð á öðrum vörum. Lágt raforkuverð sögulega hefur verið afleiðing af hagkvæmri uppbyggingu raforkukerfisins í fortíð.
Raforkuverð er fléttað saman úr ýmsum þáttum og að hluta til þáttum sem við höfum stjórn á en höfum kosið að vanrækja.
Ráðandi þættir raforkuverðs
Þrír þættir eru ráðandi í myndun raforkuverðs á Íslandi:
- Til skemmri tíma hafa duttlungar náttúrunnar töluverð áhrif, þ.e. innrennsli í uppistöðulón landsins hefur töluverð áhrif á raforkuverð.
- Til lengri tíma hafa ákvarðanir um fjárfestingu í raforkukerfinu áhrif á raforkuverð. Ástæða þess að raforkuverð hefur sögulega verið lágt á Íslandi er að stærstum hluta að það voru teknar ákvarðanir í fortíðinni um að byggja upp hagstætt raforkukerfi sem hefur reynst þjóðinni mjög vel.
-- Hagkvæmir vatnsafls- og jarðvarmakostir nýttir
-- Sterkt flutnings- og dreifikerfi byggt upp
- Að lokum hefur eftirspurnin eftir raforku áhrif á verðið. Aukin fólksfjölgun og hagvöxtur krefst aukinnar orku og tækniframfarir hafa skapað nýja leiðir til matvælaframleiðslu og möguleika á nýtingu gervigreindar.
En hverju getum við stjórnað?
Tvo af þremur undirliggjandi þáttum raforkuverðs geta Íslendingar haft lítil áhrif á. Við munum aldrei stjórna náttúrunni og það er ekki raunhæft að ætla að stöðva tækniframfarir og bætt lífskjör til þess að draga úr eftirspurn eftir raforku. Við getum þó haft áhrif á það hvernig við byggjum upp raforkukerfið og getum lágmarkað áhrif náttúrunnar og breytinga í eftirspurn á raforkuverð til almennra notenda á Íslandi.
Á einhverjum tímapunkti kemur að því að þær góðu ákvarðanir sem teknar voru í fortíð hætta að verða ráðandi þáttur í raforkuverði og skortur á ákvörðunum síðastliðin ár fer að hafa meiri áhrif.
Síðastliðin 15 ár hefur Ísland kosið að fjárfesta lítið í raforkukerfinu. Flutningskerfi raforku er að stórum hluta það sama og var reist fyrir 50 árum. Í venjulegu ári tapast mikil orka því að ekki er hægt að flytja hana á milli landshluta. Ekki hefur verið tekin skóflustunga að stærri aflstöð í tæp 10 ár á meðan að íbúafjöldi landsins hefur aukist um meira en 50.000. Á einhverjum tímapunkti kemur að því að þær góðu ákvarðanir sem teknar voru í fortíð hætta að verða ráðandi þáttur í raforkuverði og skortur á ákvörðunum síðastliðin ár fer að hafa meiri áhrif.
Staðan mun skána
Mikilvægt er að hafa í huga að núverandi staða er ekki varanleg. Vatnafar er sérstaklega óhagstætt um þessar mundir en það mun lagast. Við getum einnig kosið að halda í þau gildi sem upphaflega var lagt upp með við uppbyggingu raforkukerfis á Íslandi. Að byggja upp hagkvæmt sterkt kerfi sem tryggir öllum Íslendingum aðgengi að raforku á hagstæðu verði.
Höfundur er sérfræðingur hjá Viðskiptagreiningu og þróun hjá Landsvirkjun.