„Ef að við rekumst ekki á einhverjar óvæntar hindranir eða óyfirstíganlegar á honum þá myndi ég telja að við værum að fara að klára þetta vonandi fyrir kvöldmat, það er stefnan,“ segir Steinunn en rætt var við hana í Karphúsinu í hádeginu í dag.
Hún segir að áhersla þeirra í kjaraviðræðum sé betri vinnutími og stytting vinnuvikunnar. Að stuðla að betra jafnvægi einkalífs og vinnu.
„Að þurfa ekki að vinna myrkranna á milli, eins og sumir læknar hafa gert, til þess að hafa sæmilega í sig og á.“
Verði hægt að lokka lækna heim
Steinunn segir álag hafa verið úr öllu hófi og að þeir samningar sem þau vinni að núna geti verið stórt skref í vinnuverndarátt gagnvart þessum hópi.
Steinunn segir eitt af yfirmarkmiðum viðræðnanna að fá lækna heim sem starfa erlendis. Vinnuumhverfið hafi verið óaðlaðandi en þau sjái fyrir sér að ef þau nái að landa kjarasamning, eins og hann sé að birtast þeim núna, þá sé það söluvara til útflutnings og það verði hægt að „lokka fólk heim“.
„Ég veit það eru komin fram áform um að fylgja honum eftir ef allt fer á besta veg,“ segir Steinunn og vonar að það verði hægt að baka vöfflur í Karphúsinu í kvöld.