Innlent

Ið­gjöld til NTÍ munu hækka um fimm­tíu prósent

Jón Þór Stefánsson skrifar
NTÍ vátryggir meðal annars húseiginir gegn tjónum náttúruhamfara. Þann 14. janúar urðu þessi hús í Grindavík eldgosi að bráð.
NTÍ vátryggir meðal annars húseiginir gegn tjónum náttúruhamfara. Þann 14. janúar urðu þessi hús í Grindavík eldgosi að bráð. Vísir/Rax

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, eða NTÍ, sem felur í sér heimild stofnunarinnar til þess að hækka iðgjöld tímabundið um fimmtíu prósent. Þessi heimild mun verða nýtt frá og með komandi nýársdegi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu, en þar segir að atburðirnir, sem hafa átt sér stað á Reykjanesi undanfarið, hafi haft veruleg áhrif á fjárhagslega stöðu NTÍ. Stofnunin þurfi á hverjum tíma að eiga fjármuni til að greiða bætur vegna tjóns á húseignum, innbúi og öðru lausafé sem vátryggt er hjá NTÍ.

„Heimild til hækkunar á iðgjöldum NTÍ verður nýtt og frá og með 1. janúar 2025 og verða þau innheimt með 50% álagi samhliða brunatryggingariðgjöldum. Iðgjald fyrir húseignir, innbú og annað lausafé fer úr 0,025% í 0,0375% af vátryggingarfjárhæð.“

Í tilkynningunni segir að áhrif þessara breytinga verði þau að iðgjald til NTÍ af áttatíu milljóna króna eign muni hækka úr 20 þúsund krónum á ári í 30 þúsund. Þá muni iðgjald af innbústryggingu á 20 milljóna króna innbúi hækka úr fimm þúsund krónur í 7,5 þúsund.

Náttúruhamfaratrygging Íslands er opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja húseignir og brunatryggt lausafé, þar með talið innbú, gegn tjóni af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×