Enski boltinn

Fjór­tán ára á æfingum með Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Max Dowman á æfingu með Arsenal.
Max Dowman á æfingu með Arsenal. @fabrizioromano

Hinn 14 ára gamli Max Dowman þykir gríðarlega efnilegur fótboltamaður og hann er þegar farinn að mæta á æfingar hjá aðalliði Arsenal.

Downman er enskur, sóknarsinnaður miðjumaður sem þrátt fyrir ungan aldur er í dag leikmaður U18-liðs Arsenal, og hefur raunar verið það síðan í fyrrahaust þegar hann var enn 13 ára.

Honum er spáð afar bjartri framtíð og ekki minnkaði eftirvæntingin í október þegar hann varð yngsti markaskorari í sögu Ungmennadeildar UEFA, með því að skora í leik gegn Atalanta.

Jack Wilshere, þáverandi þjálfari U18-liðs Arsenal, ræddi um Downman við heimasíðu Arsenal síðasta vor og sagði:

„Það fylgir því alltaf óróleiki að tefla fram svona ungum leikmanni, en ef maður er nógu góður þá er maður nógu gamall,“ sagði Wilshere.

„Dowman þarf að ná meiri stöðugleika en hann er bara 14 ára og er ekki enn byrjaður með CGSE [nám í Englandi fyrir 14-16 ára]. Við verðum að fá jafnvægi á milli þess að hann leiki sér og njóti eins og aldur hans gefur tilefni til, en að hann fái líka að leggja eins mikið á sig og hægt er,“ sagði Wilshere.

Arsenal-menn eru greinilega ekki hræddir við að gefa hinum unga Dowman tækifæri og hefur þessi 14 ára leikmaður eins og fyrr segir fengið að mæta á æfingar hjá Mikel Arteta, með aðalliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×