Fótbolti

Tók fram úr Haaland og varð marka­hæstur

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gyökeres með einkennisfagnið sitt, geng Aserbaísjan í gær.
Viktor Gyökeres með einkennisfagnið sitt, geng Aserbaísjan í gær. Getty/Robbie Jay Barratt

Sænski framherjinn Viktor Gyökeres er svo sannarlega sjóðheitur þessa dagana og hann afrekaði það að verða markahæstur í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar sem nú er lokið.

Gyökeres tók fram úr hinum norska Erling Haaland á lokakvöldi riðlakeppninar í gær, þegar Svíinn skoraði fernu í 6-0 sigri gegn Aserbaísjan.

Gyökeres náði þar með að skora níu mörk í riðlakeppninni, tveimur fleiri en Haaland sem kom næstur. Svíinn hefur sömuleiðis verið að raða inn mörkum fyrir Sporting Lissabon, með 16 mörk í 11 deildarleikjum í haust, og verið orðaður við Manchester United sem núna hefur fengið stjóra Sporting, Rúben Amorim.

Það ber þó að hafa í huga að Gyökeres skoraði mörkin sín fyrir Svía í C-deild, gegn auðveldari andstæðingum en Norðmenn sem léku í B-deild líkt og Íslendingar. Svíar unnu sig hins vegar upp í B-deild með því að vinna sinn riðil, og Norðmenn unnu sig upp í A-deild með því að vinna sinn riðil.

Í A-deildinni varð Cristiano Ronaldo markahæstur en hann skoraði fimm mörk fyrir Portúgal, tveimur fleiri en næstu menn.

Hjá íslenska landsliðinu var Orri Óskarsson markahæstur með þrjú mörk. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði tvö og þeir Ísak Bergmann Jóhannesson, Guðlaugur Victor Pálsson, Jón Dagur Þorsteinsson og Logi Tómasson eitt hver. Logi á þó einnig allan heiðurinn að öðru marki gegn Wales í október, sem skráð var sem sjálfsmark markvarðarins Danny Ward.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×