Á fyrri hluta 20. aldar var Argentína táknmynd ríkidæmis. Landið bjó við efnahagslega velmegun, knúna áfram af framúrskarandi landbúnaði og sterkri alþjóðlegri stöðu hans. Landsframleiðsla á mann var meiri en í flestum Evrópulöndum, þar á meðal flestra þeirra sem eru í dag í fararbroddi. Í dag er sagan allt önnur. Skammsýn efnahagsstefna, þar sem þjóðnýting, óstöðug skattlagning og flóknar reglur réðu ríkjum, leiddi til viðvarandi efnahagshruns og pólitísks óstöðugleika. Saga Argentínu sýnir hvernig misráðin stefna getur tortímt efnahagslegum tækifærum. Þetta er lærdómur sem auðlindarík lönd eins og Ísland og Noregur geta dregið af.
Olíudrifin velsæld — Lífæð eða fjötur
Noregur hefur byggt velmegun sína upp á olíuauðlindum og afleiddri starfsemi. Noregur er í dag eitt ríkasta land heims. En eins og Argentína forðum stendur Noregur frammi fyrir áskorunum. Olíuauðurinn hefur rutt ýmsu úr veginum í Noregi sem hefði getað orðið. Til viðbótar þarf að hafa í huga að vægi olíu í framtíðinni verður líklega minna en í fortíðinni.
Skömmustuveggurinn jók skautun. Hann setti flókin mál í pólitískar skotgrafir og skapaði tortryggni og fjármagnsflótta í stað mikilvægrar samstöðu í samfélaginu.
Þrátt fyrir mikla velmegun af olíu gæti slagkraftur norsks efnahagslífs hafa minnkað án fjárfestinga í nýsköpun og fjölbreytni atvinnulífs. Noregur er í 21. sæti á nýsköpunarvísitölu landa, langt á eftir Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að nýta olíuauðinn til að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem getur staðið undir framtíðarhagsæld.
Áhyggjur af framtíð norskra atvinnuvega hafa aukist undanfarið. Fjöldi frumkvöðla og efnamanna flutti nýlega allt sitt hafurtask úr landi vegna skattlagningar sem þeir töldu hamla nýsköpun sinni og verðmætasköpun.
Gagnrýni vegna þessa kom þó úr báðum áttum. Vinstriflokkarnir fordæmdu frekar skattaflóttann en skattlagninguna. Leiðtogi norskra sósíalista, Kirsti Bergstø, hefur til að mynda verið í fréttum vegna „skammist ykkar veggnum“ þar sem hún hengdi upp myndir af norskum frumkvöðlum sem flúðu land vegna þessara skattbreytinga, þeim til minnkunar.
Skautun dýpkar gjár í samfélaginu
Skömmustuveggurinn jók skautun. Hann setti flókin mál í pólitískar skotgrafir og skapaði tortryggni og fjármagnsflótta í stað mikilvægrar samstöðu í samfélaginu.
Þessi staða er áminning um hvernig Argentína varð fórnarlamb eigin stefnu. Norskir stjórnamálamenn mega ekki gleyma að náttúruauðlindir einar og sér breyta engu til frambúðar, spyrjið bara fólkið í Venesúela, Kongó eða Argentínu. Stjórnkerfið þarf að framfylgja framsækinni framtíðarvænni stefnu. Það þarf að vera ljóst hvert skal stefnt og af hverju. Í Noregi gætu hin ríkjandi jöfnunarsjónarmið, í skjóli olíudrifnar velsældar, dregið úr slagkrafti og nýsköpun umfram það sem tryggir framtíðarvelsæld þjóðarinnar. Hvar jafnvægi skattlagningar og slagkraftar er má alltaf deila um. Þó virðist sem skautunin og tilheyrandi atgervisflótti sé vaxandi og sem leiði til minni samstöðu og minni stöðugleika.
Vegurinn til velsældar
Það er ekki of seint fyrir Noreg, eða Ísland ef út í það er farið, að bregðast við og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Líkt og Noregur byggir Ísland stóran hluta af velmegun sinni á auðlindum, og þurfa löndin bæði að fjárfesta í nýsköpun, tækni og fjölbreyttu atvinnulífi. Sanngjörn skattastefna sem hvetur til nýsköpunar og umbunar áhættu er nauðsynleg til að tryggja langtímavelsæld beggja þjóða.
Skattar þurfa að vera sanngjarnir en skapa hvata til nýsköpunar og umbuna áhættu. Annars gerir enginn neitt. Þeir mega ekki letja hæfileikafólk til athafna eða hvetja fólk til að fara úr landi.
Samfélagið þarf að vera samfélag. Viðhalda þarf jafnvægi í samfélaginu og forðast aðgerðir sem skauta umræðuna eða draga úr trausti og trú á framtíðinni.
Saga Argentínu kennir okkur að auðlindir tryggja ekki velsæld. Það eru ákvarðanir stjórnvalda sem ráða úrslitum. Ef lönd fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi, réttlátri skattlagningu og samfélagslegri samstöðu getur landið haldið forystu sinni sem velsældarríki.
Velsæld er aldrei tryggð. Langvarandi velsæld byggir ekki á auðlindum heldur ákvörðunum stjórnvalda og hvernig fólki tekst að vinna úr þeim.
Það er undir okkur komið að tryggja að við notum náttúrauðlindir okkar sem stökkpall nýrra tækifæra í stað þess að fjötra okkur.
Hvað þú gerir en ekki hvað þú hefur
Saga Argentínu, saga Noregs, saga Íslands og meira að segja Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár minna okkur á að það skiptir ekki máli hvað þú hefur heldur einfaldlega hvað þú gerir. Það er ekki bara Argentína sem hefur villst af leið eftir auðlindadrifið velsældartímabil. Svo eru önnur lönd sem hafa verið ömurleg alla tíð alveg óháð stórkostlegum auðlindum. Enn önnur hafa svo staðið svo frábærlega um langa hríð án nokkurra auðlinda.
Velsæld er aldrei tryggð. Langvarandi velsæld byggir ekki á auðlindum heldur ákvörðunum stjórnvalda og hvernig fólki tekst að vinna úr þeim.
Íslendingar, Norðmenn og allir hinir mega ekki gleyma þessu.
Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.