Eftir 2-0 sigur Íslands úti í Svartfjallalandi á laugardaginn, og markalaust jafntefli Wales við Tyrkland, er ljóst að Ísland endar í 3. eða 2. sæti síns riðils í B-deild Þjóðadeildarinnar. Mikill munur er á þeim sætum og því mikið í húfi á morgun, en leikurinn hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Blaðamannafundinn í Wales má sjá á upptöku hér að neðan.
Sigur gegn Wales, í lokaumferðinni á morgun, dugar til að taka 2. sætið af Walesverjum og tryggja að Ísland falli ekki niður í C-deild. Liðið myndi í staðinn spila í umspili í mars um sæti í A-deild á næstu leiktíð.
Jafntefli eða tap þýðir að Ísland endar í 3. sæti og fer í umspil í mars við lið úr C-deild. Sigurliðið í því umspili myndi spila í B-deild á næstu leiktíð en tapliðið í C-deild.
Ísland verður án Loga Tómassonar, hetjunnar úr fyrri leiknum við Wales í haust, vegna leikbanns. Þá meiddist fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í læri snemma leiks í sigrinum gegn Svartfellingum.