Sagt hefur verið, að ef maður vilji vera viss um að hætt sé að taka mark á því sem maður segir, þá sé öruggasta leiðin til þess, að fara í pólitík. Hafi hins vegar aldrei verið mark takandi á því sem maður segir er skaðinn lítill. Fyrir komandi kosningar hafa flestir flokkanna lagt áherslu á, eða tekið undir, nauðsyn þess að draga þurfi úr umsvifum og kostnaði ríkisins. Nú síðast hefur meira að segja formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum hjá Ólafi Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, þann 12. nóvember sl., sagst vera tilbúin að skoða það að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um opinbera starfsmenn í þeim tilgangi að auðveldara sé að segja þeim upp. Hún kannist vel við þá umræðu að erfitt sé að hagræða í opinberum rekstri vegna gildandi laga um opinbera starfsmenn. En hvað með ábyrgð embættismanna? Er Kristrún tilbúin að taka ábyrgð á ákvörðunum, eða ætlar hún, eins og hefðin er fyrir, að láta alla ábyrgð enda í hinu pólitíska algleymi, þar sem enginn er dreginn til ábyrgðar og stólaskipti ráðherra er viðtekin íslensk lausn við óþægilegum uppákomum?
Í áðurnefndu samtali spyr Ólafur hvort Alma Möller, núverandi landlæknir, sé ekki ráðherraefni Samfylkingarinnar fyrir heilbrigðisráðuneytið. „Ekki spurning“ svaraði Kristrún um hæl, þar færi langframbærilegasti aðilinn sem hefði gefið færi á sér til þingsetu þegar kæmi að heilbrigðismálum. Hins vegar viðurkenndi Kristrún að hún væri ekki inni í þeim málum sem Ólafur lýsti sem lögbrotum af hálfu embættis landlæknis á sviði útboðsmála, og sem steinum sem hún hefði lagt í götur nýsköpunarfyrirtækja. Þá hefði embættið dregið eitt þessara fyrirtækja fyrir dómstóla sér til varnar við úrskurðum Kærunefndar útboðsmála, þess efnis að embættinu hefði verið skylt að bjóða ákveðin verkefni út.
Ábyrgð embættismanna
Kristrún leggur áherslu á að það verði að gera greinarmunn á persónunni Ölmu Möller og embættismanninum Ölmu Möller, sem meðal annars verði að fylgja stefnu stjórnvalda og þeim skyldum sem á embættið eru settar af heilbrigðisráðuneytinu og séu ekki alltaf í takt við tímann. Þegar í harðbakkann slær er alltaf gott að benda á einhvern annan.
Embættismenn sem fremja lögbrot eru hins vegar ábyrgir bæði sem persónur og embættismenn. Vissulega hafa þeir rétt til áfrýjunar og eru saklausir þar til sekt er sönnuð, en fram að því á almenningur rétt á því að þeir stígi til hliðar. Kristrún hefur hins vegar ákveðið að tefla fram persónunni og embættismanninum Ölmu Möller sem sínu ráðherraefni til heilbrigðisráðuneytisins, vel vitandi um óhreinindin í „embættismannssekknum“. Þar með leggur hún blessun sína yfir gjörninga Ölmu.
Í ljósi ofangreinds sér undirritaður sig knúinn til þess að veita Kristrúnu, öðrum frambjóðendum, og þá ekki síst kjósendum, smá innsýn í embættisverk Ölmu og þau mál sem nefnd eru hér að framan, og sem Kristrún lagði til að Ólafur leitaði svara við með því að ræða beint við Ölmu. Svar Kristrúnar má túlka sem svo að hún sjái ekki ástæðu til þess að viðurkenna þekkingu sína á málinu, þó svo að þetta sé mál sem viðgengist hefur í tíð og með vitund margra ríkisstjórna og þingmanna, þar með talið hennar, en fyrirspurnir um fyrirkomulag og greiðslur fyrir sjúkraskrárhugbúnað og rafrænar lausnir hafa endurtekið verið lagðar fram á Alþingi. Andsvör landlæknisembættisins við ásökununum getur hins vegar hver sem vill kynnt sér með lestri á úrskurðum Kærunefndar útboðsmála og greinargerðum lögmanna embættisins, sem aðallega beita svokallaðri „spaghettíaðferð“ þegar þeir taka til varna, þar sem öllu er teflt fram, jafnvel þó innbyrðis ósamræmis gæti, enda eiga þeir vondan málstað að verja.
Milljarðagreiðslur til einkafyrirtækis í boði landlæknis á grundvelli munnlegs samkomulags
Árið 2017 runnu út samningar embættis landlæknis við Origo/Helix sem undirritaðir voru árið 2013. Eftir að samningarnir runnu út árið 2017 voru þeir ekki endurnýjaðir skriflega, heldur munnlega að sögn forsvarsmanna embættis landlæknis. Síðan Alma tók við embættinu árið 2018 hefur ekkert breyst hvað þetta varðar og milljarðar króna haldið áfram að streyma í vasa eins vildarvina hins opinbera, Origo/Helix, án verkbókhalds eða verklýsinga. Um þetta má allt lesa í skriflegum svörum embættis landlæknis við fyrirspurnum Úrskurðarnefndar upplýsingamála og í umfjöllun Kærunefndar úrboðsmála, sem reyndu að fá embættið til að afhenda bókhald og upplýsingar um greiðslur og verkskil vegna umræddra samninga.
Rétt er að benda á að framangreind innkaup í áraraðir án útboðs geta talist fela í sér ríkisaðstoð og eru ólögmæt samkvæmt íslenskum lögum og ákvæðum EES samningsins. Í vor lögðu tvö fyrirtæki fram kæru til ESA, Eftirlitsstofnunnar EFTA, á viðskiptum landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins við Origo/Helix, á þeim forsendum að um opinberan stuðning við einkaaðila sé að ræða. Þess eru dæmi að fyrirtækjum sem hafa þegið opinberan stuðning að mati ESA hafi verið gert að endurgreiða hverja einustu króna til baka. Í tilfelli Origo/Helix væru þetta upphæðir sem næmu rúmum árstekjum fyrirtækisins, í það minnsta.
Því miður er framan talið aðeins toppurinn á ísjakanum og af nógu að taka þegar kemur að vafasömum starfsháttum embættis landlæknis í tíð Ölmu, sbr. upptalningu Ólafs í umræddu Kaffikróksviðtali. Þá skyldi ekki gleyma úrskurði Persónuverndar vegna brota landlæknis við meðferð heilbrigðisupplýsinga sem leiddu til einnar hæstu sektar sem Persónuvernd hefur lagt á nokkurn aðila. Þar gekk landlæknir í ábyrgð fyrir vinnslu sem hann hefur ekki lagalega heimild fyrir og tæknilegum mistökum Origo/Helix sem embættið hafði engar forsendur til að bera ábyrgð á. Í því samhengi hefur landlæknir tekið að sér lögbundið eftirlitshlutverk á eigin starfsemi. Persónan Alma þiggur 1.8 milljón króna í mánaðarlaun úr vasa skattgreiðenda. Upphæðin á vafalaust að endurspegla ábyrgð persónunnar sem sinnir embættinu. Stjörnuferill, þyrlu- og svæfingalækningar, gáfur og skemmtilegheit hafa ekkert með trúverðugleika eða hæfni til ráðherraembættis að gera. Látum fremur verkin tala!
Stjórnsýsla dauðans í þágu einkafyrirtækis
Með vísan í lög nr. 41/2007 um landlækni staðfesti þáverandi velferðarráðherra þann 8. febrúar 2011 fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2011. Fyrirmælin hafa ígildi laga, þ.e. veitendum heilbrigðisþjónustu sem reka sjúkrahús er skylt að fylgja þessum fyrirmælum.
Frá árinu 2018 hefur undirritaður ítrekað leitað eftir upplýsingum frá embætti landlæknis til að geta smíðað hugbúnaðarlausn til uppfyllingar á útgefnum lágmarkskröfum og skilum vistunarskráa. Í 6 ár hafa starfsmenn embættisins endurtekið veitt rangar og misvísandi upplýsingar, sem og nú viðurkennt að þeir búi ekki yfir þekkingu um umrædda skráningu og kerfum á þeirra vegum til móttöku upplýsinganna, enda eru þau kerfi öll hönnuð og smíðuð af Origo/Helix, sértaklega og eingöngu til að taka við vistunarupplýsingum úr Sögukerfinu, sem er kostað af skattgreiðendum, en í fullri eigu Origo/Helix. Misvísandi upplýsingar, sem starfsmenn embættisins hafa staðfest að séu rangar, eru birtar sem uppfærðar lýsingar og leiðbeiningar á vefsíðum embættisins á Island.is, samkeppnisaðilum Origo/Helix til „leiðbeiningar“, eða öllu heldur afvegaleiðingar. Þetta hefur leitt til þess að milljónir króna hafa tapast í tilgangslausri vinnu, sem enginn ætlar að taka ábyrgð á.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirtæki undirritaðs verður fyrir sams konar tjóni, eins og má lesa í kærum til Samkeppniseftirlitsins yfir margra ára skeið að því er varðar rafræn samskipti kerfa okkar við Sögu-sjúkraskrárkerfið. Í samskiptum við undirritaðan hafa starfsmenn embættisins upplýst að þekking á viðkomandi kerfum liggi hjá einum starfsmanni Origo/Helix þegar kemur að skilum og móttöku vistunarupplýsinga frá sjúkrastofnunum. Þar með gátu þeir ekki nálgast þær upplýsingar sem undirrituðum hafði áður verið leiðbeint um hvar skyldi komið fyrir. Þannig hafa sjúkrastofnanir ekki um annað að velja en að verða að kaupa kerfi Origo/Helix eigi þær að geta uppfyllt lögbundin fyrirmæli landlæknis um skil á lágmarksskráningu og vistunarupplýsingar. Þar með viðheldur landlæknir einokunarstöðu Origo/Helix á markaði fyrir sjúkrahúskerfi á Íslandi og kemur í veg fyrir að sprotafyrirtæki nái að festa rótum.
Í öllu falli má það nú vera ljóst að Kristrún Frostadóttir hefur lagt blessun sína yfir embættisfærslur Ölmu Möller sem landlæknis, hvort sem hún hefur kynnt sér þær eða ekki. Skrattinn býr í smáatriðunum eins og sagt er, og hafi Kristrún ekki kynnt sér feril Ölmu til hlítar ber það vitni um yfirborðsmennsku og þekkingarleysi sem eru allt of einkennandi fyrir íslensk stjórnmál og stjórnsýslu. En eflaust er þetta í huga Kristrúnar er ekkert til að hafa áhyggjur af. Áframhaldandi og jafnvel auknar greiðslur til markaðsráðandi einokunarfyrirtækja verða gerðar mögulegar með aukinni skattheimtu skv. margtilvitnuðum plönum og útspilum Samfylkingarinnar svo „Almageddon“ heilbrigðiskerfisins geti haldið áfram, komist flokkurinn til valda.
Höfundur er forstjóri Skræðu ehf heilbrigðislausna, hugbúnaðarfyrirtækis á sviði heilbrigðistækni.