Sveindís kom inn á sem varamaður í hálfleik. Hún hefur aðeins verið í byrjunarliðinu í einum deildarleik á tímabilinu.
Í viðtali við Vísi í gær sagðist þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, Þorsteinn Halldórsson, ekki enn vera farinn að hafa áhyggjur af stöðu Sveindís hjá Wolfsburg en viðurkenndi að hann vildi sjá hana spila meira.
Wolfsburg hefur unnið átta af fyrstu tíu deildarleikjum sínum, gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Þær grænu eru fimm stigum á undan næstu liðum, Frankfurt, Bayern München og Bayer Leverkusen en þau eiga öll leik til góða.
Dagný Brynjarsdóttir lék síðustu sextán mínúturnar fyrir West Ham United sem laut í lægra haldi fyrir Brighton, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni.
West Ham lenti 2-0 undir í leiknum en Katrina-Lee Gorry jafnaði með tveimur mörkum með skömmu millibili eftir rúman klukkutíma. En gamla brýnið Fran Kirby tryggði Brighton sigurinn með marki á 82. mínútu.
María Þórisdóttir lék ekki með Brighton sem er í 3. sæti deildarinnar með sextán stig, þremur stigum á eftir toppliði Manchester City. West Ham er í 9. sætinu með fimm stig.