Í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ í dag kemur fram að tankbíll hafi dælt vatni inn á kerfi á Flateyri og því sé núna hægt að fá vatn úr krönum. Það sé takmarkaður kraftur og erfitt að segja hvenær fullur kraftur kemst á vegna slæmrar veðurspár næstu daga.
Þá kemur fram að aðstæður til að komast að vatnsbólinu séu slæmar vegna nýfallinna aurskriða. Stefnt sé að því að komast að vatnsbólinu eftir hádegi. Þá eigi að reyna að hreinsa geislunarperur sem sótthreinsa vatnið.

Samkvæmt tilkynningu verður sundlaug Flateyrar lokuð í dag. Íbúar fá tilkynningar í gegnum 1819.is en þurfa að vera skráðir á síðuna til að fá SMS með upplýsingum um stöðuna.
Vatn aftur eðlilegt í Bolungarvík
Í tilkynningu frá Bolungarvík segir að eftir að veðuraðstæður bötnuðu í gær og það hætti að rigna, hafi aðstæður breyst hratt í vatnsveitunni.
„Starfsfólk vatnsveitunnar var við vinnu fram á nótt og byrjaði snemma í morgun með góðum árangri. Allur síubúnaður virkar vel og er allt vatn geislað í samræmi við allar verklagsreglur. Það er því allt sem bendir til þess að vatnið sé aftur orðið eðlilegt og hæft til matvælavinnslu og drykkjar,“ segir í tilkynningu frá bænum.
Þó er bent á að á morgun verði aftur slæmt veður og bæjaryfirvöld séu að undirbúa sig til að tryggja góð vatnsgæði. Þau muni vinna náið með Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða í eftirliti.