Liverpool sýndi mátt sinn og megin og vann 4-0 sigur á Þýskalandsmeisturum Bayer Leverkusen á Anfield. Díaz skoraði þrennu og Cody Gakpo var einnig á skotskónum. Liverpool er með tólf stig á toppi Meistaradeildarinnar.
Rúben Amorim stýrði Sporting í síðasta sinn á heimavelli þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann Englandsmeistara Manchester City, 4-1. Gyökeres skoraði þrennu fyrir Sporting og hefur gert 23 mörk í sautján leikjum í öllum keppnum í vetur. Maximiliano Araújo skoraði einnig fyrir Sporting en Phil Foden kom City yfir í upphafi leiks. Heimamenn svöruðu svo með fjórum mörkum.
Milan gerði góða ferð á Santiago Bernabéu og vann 1-3 sigur á Real Madrid. Malick Thiaw, Álvaro Morata og Tijjani Reijnders skoruðu mörk ítalska liðsins en Vinícius Júnior gerði mark Evrópu- og Spánarmeistaranna úr vítaspyrnu.
Lille heldur áfram að gera stóru liðunum skráveifu og gerði 1-1 jafntefli við Juventus á heimavelli. Jonathan David kom Frökkunum yfir en Dusan Vlahovic jafnaði fyrir ítalska liðið úr víti.
Monaco komst upp í 3. sæti Meistaradeildarinnar með 0-1 útisigri á Bologna. Thilo Kehrer skoraði eina mark leiksins.
Borussia Dortmund slapp með skrekkinn gegn Sturm Graz og vann 1-0 sigur á heimavelli. Markið skoraði Donyell Malen þegar fimm mínútur voru til leiksloka.
Nicolas-Gerrit Kühn skoraði tvö mörk og Reo Hatate eitt þegar Celtic sigraði RB Leipzig á Celtic Park, 3-1. Christoph Baumgartner skoraði mark þýska liðsins.
PSV Eindhoven rúllaði yfir Girona á heimavelli, 4-0. Ryan Flamingo, Malik Tillman, Johan Bakayoko og Ladislav Krejci (sjálfsmark) skoruðu mörk hollenska liðsins.
Þá sigraði Dinamo Zagreb Slovan Bratislava, 1-4. David Strelec kom heimamönnum yfir en gestirnir svöruðu með fjórum mörkum. Sandro Kulenovic skoraði tvö þeirra og Dario Spikic og Petar Sucic sitt markið hvor.
Öll mörkin úr leikjunum níu má sjá hér fyrir ofan.