Í þáttunum fara þær um víðan völl og fanga um leið samband þeirra og líf síðastliðin 28 ár. Helga segist stefna að því að gera móður sína að næstu hlaðvarpsstjörnu Íslands.
„Mamma hafði fyrir þessa þætti aldrei hlustað á hlaðvarp og það er varla að finna mynd af henni á samfélagsmiðlum aðrar en þær sem pabbi hefur póstað. Svo er líka gaman hve viðtökurnar eftir fyrstu þættina eru góðar og hafa farið fram úr öllum okkar væntingum,“ segir Helga í samtali við Vísi.
„Samband mæðgna getur verið margskonar. Við höfum alltaf verið nánar og stundum kannski um of. Það hefur gengið á ýmsu í gegnum tíðina og erum við langt frá því að vera alltaf sammála.“
Mæðgurnar gáfu út fyrstu tvo þættina síðustu helgi. Fyrsti þátturinn bar heitið Ein ólétt og önnur miðaldra og var kynningarþáttur þar sem þær fóru yfir hugmynd þáttanna og þeirra lífskeið.