Það er hefð og árviss viðburður að landsmenn kynna sér á haustmánuðum nýútkomnar bækur sem gjarnan rata síðan í jólapakkann til vina og vandamanna. Það er ekki að ástæðulausu sem orðið jólabókaflóð er notað. Margrét Tryggvadóttir formaður Rithöfundasambandsins segir að mun minna hafi farið fyrir umfjöllun um bækur frá því kosningaumfjöllunin tók yfir.
„Ég held það sé öllum ljóst sem hafa einhverja þekkingu á þessu og hafa fylgst með jólabókaflóðinu og stemningunni og stuðinu að það er svolítið verið að stela okkar tíma, finnst okkur, það er ekki það að við séum á móti lýðræðislegum kosningum. Það var smá skellur að fá niðurskurð í bókasafnssjóð í fjárlagafrumvarpinu og svo kosningar ofan í okkar besta tíma og þann tíma sem skiptir langmestu máli fyrir bóksölu á Íslandi.“
Margrét segir að fjárhagsáhyggjur og afkomuótti sé fyrir viðvarandi hjá rithöfundum og að nú sé helsti sölutíminn kominn í uppnám - umfjöllun fjölmiðla hafi líka þýðingu fyrir framgang rithöfundaferils fólks.
„Við höfum sjaldan verið í eins harðri samkeppni um athygli, við höfum náttúrulega prufað ýmislegt, jarðhræringar og eldgos, heimsfaraldur og allt mögulegt síðustu árin en þetta er alveg sérstakt og það sem er sérstaklega vont fyrir okkur núna er þessi rosalega athygli í fjölmiðlum sem fylgir.“
Hún skilji vel að það sé mikil umfjöllum um kosningar, enda mikið í húfi á þeim vettvangi líka en hún biðlar til fólks að gleyma ekki bókmenntunum.
„Tungumálið okkar er í stórri hættu og við verðum að eiga sterka stétt höfunda og styðja hana með öllum ráðum þannig að ég bara biðla til fólks að vinda sér út í bókabúð og skoða úrvalið og jafnvel velja sér eitthvað gott og hvíla hugann frá pólitíkinni, í og með.“