Innlent

„Ef ég væri kóngur myndi ég heita Valtýr sau­tjándi“

Helena Rakel skrifar
Valtýr Þór Hreiðars­son er alltaf í sautjánda sæti.
Valtýr Þór Hreiðars­son er alltaf í sautjánda sæti.

„Ef ég væri kóngur myndi ég heita Valtýr sautjándi,“ segir Valtýr Þór Hreiðars­son rekstrarhagfræðingur í samtali við Vísi en hann hefur skipað sautjánda sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu þrjár alþingiskosningar og eru alþingiskosningarnar þann 30. nóvember engin undantekning frá því.

Allt í allt hefur Valtýr því skipað sautjánda sætið fjórum sinnum á lista Viðreisnar og segist hann líka vel við sig í því sæti. Athygli var vakin á málinu á Facebook-hópnum, Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar. Þar segir að frá stofnun Viðreisnar hafi hann ávallt verið í sama sætinu.

„Ég er bara sautjándi maður, bara alltaf! Hún hringdi í mig sú sem að vinnur þarna og spurði mig hvort ég vildi vera þarna: Sama sæti? Sagði hún. Jú við skulum endilega hafa það. Það er óþarfi að flækja þetta. Ég verð bara sautjándi um ókomna tíð,“ segir hann kíminn.

Spurður hvort hann hafi sérstakt dálæti af tölunni sautján þá svarar hann því neitandi.

„Sautján hefur enga persónulega merkingu fyrir mig sko. Nákvæmlega ekki neitt. Þetta er bara hending,“ sagði hann og rak upp hlátur. 

Listarnir fjórir þar sem Valtýr hefur skipað sautjánda sæti fyrir Viðreisn.Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×