„Ég var bara að koma aftur til landsins um helgina og þetta gerðist svo hratt að ég hafði ekki hugsað mikið út í það að fara inn á þetta svið,“ segir Ásdís í samtali við Vísi. Hún greindi frá því fyrr í dag á samfélagsmiðlum að hún lægi undir stjórnmálafeldi.
Líkt og alþjóð man eftir bauð Ásdís sig fram til forseta fyrr á árinu svo athygli vakti. Nú eru Alþingiskosningar í nánd og margir sem áður voru í sporum Ásdísar nú í framboði líkt og þau Halla Hrund Logadóttir og Viktor Traustason.
„Það kitlar mig aðeins að skella mér út í stjórnmál en mig grunar að tíminn sé of naumur fyrir mig til þess að velja mér rétt lið. Það hafa einhverjir komið til tals við mig og boðið mér sæti á listum en það hefur ekki gengið upp að svo stöddu og algjörlega óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér.“
Segist telja að hægt sé að gera betur
Ásdís tekur fram að hún sé enginn sérfræðingur í íslenskum stjórnmálum. Hún hafi hinsvegar mikla lífsreynslu og búið víðast hvar í heiminum. Segist Ásdís telja að víðar sé hugað betur að hagsmunum almennings en á Íslandi.
„Ég hef eignast börn, rekið heimili og stjórnað fyrirtækjum, bæði hér á Íslandi og erlendis. Það er mitt hjartans mál að styðja betur við okkar fólk á flestum sviðum,“ segir Ásdís.
Hún bendir á að þrátt fyrir að vera ekki í framboði hafi hún nóg fyrir stafni og nefnir Ásdís að hún hafi einmitt í dag gefið út bók sína Celebrate You: The Art of Self-Love, á ensku. Bókin sé fáanleg á Amazon, bæði í eiginlegu formi og sem rafbók.
„Mér þykir alveg ótrúlega vænt um þessa bók, ég er búin að vera að dunda mér í að þýða hana í sumar eftir forsetaslaginn. Þetta er falleg vinnubók og lífsstílsleiðarvísir fyrir konur á öllum aldri sem vilja læra að elska sjálfa sig, finna eldmóðinn og takast á við markmið sín á markvissan og skemmtilegan hátt.“
