Lífið

Að prófa sig á­fram í opnu sam­bandi

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir skrifar
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir er sálfræðingur frá Háskóla Íslands og para- og kynlífsráðgjafi frá Michigan Háskóla.
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir er sálfræðingur frá Háskóla Íslands og para- og kynlífsráðgjafi frá Michigan Háskóla.

Ég og maki minn erum að prófa okkur áfram með opið samband. Við höfum verið að fylgja hinum ýmsu ráðum til að reyna að gera allt rétt. Viljum alls ekki klúðra sambandinu okkar eða fara rangt að þessu. Ertu með ráð?- 37 ára karl

Er eitthvað eitt rétt eða einhver ein leið sem hentar öllum? Ég held ekki.. en vissulega er ýmislegt sem þarf að hafa í huga og margt sem skiptir máli að gera vel. En í raun má hvert par velja það sambandsform sem hentar þeim!

Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.

Engin ein leið hentar öllum pörum.Vísir/Getty

Óhefðbundin sambönd eru ekki ný af nálinni. Parasambönd og hjónabönd hafa þróast í gegnum árin eins og annað í okkar samfélagi. Hjónabandið hefur oft snúist um eiginlega allt annað en ást, ef það er skoðað í sögulegu samhengi. Oft var nánast gert ráð fyrir því að fólk fyndi ástina fyrir utan hjónaband sitt.. eða bara alls ekki!

En í dag eru tímarnir aðrir, ja fyrir okkur flest að minnsta kosti. Við stofnum til sambands með þeim sem okkur langar til að vera með, hreinlega því við löðumst að þeim eða viljum vera með þeim. Í einkæru (e. monogamous) sambandi er ekki gert ráð fyrir því að þú leitir út fyrir þitt samband. Maki þinn á að vera þinn vinur, elskhugi, á að reka heimilið með þér, hlusta á þig tuða yfir leiðinlega samstarfsfélaganum og aldrei horfa á netflix þáttinn sem þið eruð að horfa á saman.. nema auðvitað bara með þér!

Allskonar pör hafa áhuga á því að haga sínu sambandi á annan hátt. Óhefðbundin sambönd geta verið allskonar. Allt frá því að parið stundi swing saman, séu í opnu sambandi og stundi kynlíf af og til með öðru fólki. En einnig getur parið átt önnur djúp tengsl eða sambönd fyrir utan upphaflega sambandið.

Síðan er í góðu lagi að byggja upp sambönd á allt annan hátt. Í sambands anarkisma er hinni hefðbundinni uppbyggingu á sambandi gjarnan hafnað. Þá er ekki verið að forgangsraða einu sambandi fram yfir önnur. Eitt samband er ekki álitið ofar eða mikilvægara en önnur. Hvert samband er þá einstakt og óháð öðrum samböndum. Sambönd þurfa ekki að þróast eftir fyrirfram mótuðum hugmyndum heldur er hverju sambandi frjálst að ákveða hvernig þau vilja hafa sitt samband og hvað felst í því.

Allskonar pör haga sambandi sínu á allskonar hátt.Vísir/Getty

Vissulega þarf að huga að ýmsu þegar kemur að því að opna samband.

Skoðið vel:

  • Samskiptin ykkar. Getið þið átt skýr og góð samskipti um líðan ykkar, langarnir, þarfir, áhyggjur og væntingar?
  • Ræðið mörk! Vissulega fer það eftir fyrirkomulaginu en ávallt er gott að fara yfir hver ykkar mörk eru. Máttu hafa skoðun á því hverja makinn þinn hittir eða ekki? Hvað með getnaðarvarnir? Hvernig ætlið þið að hlúa að ykkar sambandi og ef upp kemur vandi eða vanlíðan sem tengist sambandinu, hvernig verður það tæklað?
  • Það er eðlilegt er að finna fyrir óöryggi, afbrýðisemi eða vanmáttakennd við vissar aðstæður. Getið þið rætt þær tilfinningar ef þær koma upp?
  • Samþykki! Öll sem koma að óhefðbundnu sambandi þurfa að vera uppvís um fyrirkomulagið og vera samþykk því fyrirkomulagi. Það þýðir að fólkið sem þið kunnið að hitta, hvort sem þið farið á stefnumót eða sofið hjá viðkomandi, þarf að vita hvaða fyrirkomulag er í gangi.
  • Nálgist nýjar tengingar af virðingu og farið hægt ef þið eruð enn að vinna í ykkar fyrirkomulagi. Mikilvægt að huga vel að þeim sem þið myndið nýjar tengingar við. Þeirra tilfinningar, mörk og trúnaður milli ykkar skiptir máli.
  • Hugið vel að því hvaða fyrirkomulag hentar ykkur! Ekkert eitt hentar öllum en mikilvægt er að vera öll með skýra sýn á fyrirkomulaginu og hvað felst í því. Einnig er gott að hafa í huga að heimsækja má reglulega þær reglur eða fyrirkomulag sem er í gildi og skoða hversu sátt þið eruð við það.

Þannig að stutta svarið er… nei það er enginn ein rétt leið! Mikilvægt er að skoða vel hverju þið eruð að leitast eftir og af hverju þið eruð að leitast eftir því. Sum pör leita til ráðgjafa til að ræða sína líðan í gegnum þetta ferli.

Við Indíana Rós, kynfræðingur, fjöllum um óhefðbundin sambönd í nýjasta þætti af Kynlífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×