Innlent

Fjar­lægja úti­lista­verkið

Atli Ísleifsson skrifar
Um er að ræða lóð og hús sem hýsti banka í Ólafsfirði í fjölda ára.
Um er að ræða lóð og hús sem hýsti banka í Ólafsfirði í fjölda ára. Já.is

Til stendur að fjarlægja útilistaverkið Flæði eftir Kristinn E. Hrafnsson sem stendur á lóð Aðalgötu 14 í Ólafsfirði.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar þar sem segir að nýir eigendur hafi óskað eftir þess að verkið verði fjarlægt af lóðinni. Um er að ræða húsið sem áður hýsti banka en nýir eigendur þess stefna að því að opna þar gistihús.

Minnisblað deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og menningarfulltrúa sveitarfélagsins var lagt fyrir fund bæjarráðs fyrr í mánuðinum ásamt skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um ástand verksins sem unnin var með tilliti til ástands, endurbóta og færslu listaverksins.

Verkið var unnið af Kristni E. Hrafnssyni á árunum 1990 til 1994 og er umfang þess fjórir sinnum sex metrar.

Verkið var unnið á árunum 1990 til 1994.Listasafn Fjallabyggðar

„Fyrir liggur að fjarlægja þarf verkið og taka ákvörðun um framtíð þess,“ segir í fundargerðinni.

Bæjarráð hefur falið starfsmönnum sveitarfélagsins í samráði við lögmann sveitarfélagsins um að kalla eftir samþykki viðeigandi stofnana til þess að taka verkið niður af lóðinni. „Þegar ákvörðun liggur fyrir um samþykki þá óskar bæjarráð að málið verði lagt aftur fyrir á næsta fundi,“ segir í fundargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×